Tókst að gera vel heppnaða hryllingsmynd

Jóna Gréta Hilmarsdóttir kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins segir í fjögurra stjarna dómi um íslensku kvikmyndina Óráð, sem frumsýnd var um helgina, að myndin virki. „Besta hrósið sem rýnir getur gefið leikstjóra er að segja að kvikmyndin virki, þ.e. að hún nær að framkalla tilfinningar hjá áhorfendum. Óráð virkar, Arró tekst að hræða áhorfendur og gera vel heppnaða hryllingsmynd,“ segir í dóminum.

Leikstjóri og handritshöfundur Óráðs er Arró Stefánsson. Þetta er frumraun hans sem kvikmyndaleikstjóra en hann á að baki fimmtán ára feril sem kvikmyndatökumaður bæði hérlendis og í Japan.

Hjörtur horfir í spegilinn.

Myndin fjallar um Inga, sem Hjörtur Jóhann Jónsson leikur, ungan fjölskylduföður sem er að reyna koma undir sig fótunum að nýju eftir að hafa orðið valdur að hræðilegu slysi. Þegar hann finnur leigjanda látinn í Airbnb íbúð sinni fer að halla undan fæti hjá honum. Dularfullir hlutir fara að gerast þegar Ingi reynir að púsla saman fortíð mannsins á sama tíma og hann forðast að gera upp sína eigin…

Óráð (2023)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.1

Myndin fjallar um Inga, ungan fjölskylduföður sem er að reyna koma undir sig fótunum að nýju eftir að hafa orðið valdur að hræðilegu slysi. Þegar hann finnur leigjanda látinn í Airbnb íbúð sinni fer að halla undan fæti hjá honum. Dularfullir hlutir fara að gerast þegar Ingi ...

Gott handrit

Jóna Gréta segir að hryllingurinn sé vel skrifaður hjá Arró og í heildina sé handritið gott. „Arró tekst vel að viðhalda spennunni allan tímann og skapa hryllilegan heim í hversdagslegu rými. Rýnir sat grafkyrr og skíthræddur í sæti sínu allt áhorfið, sem er ákveðið afrek. Handritið er þó ekki gallalaust, því er t.d. ekki komið skýrt til skila hvernig atriðið með nasistunum tengist sögunni og endirinn er mjög fyrirsjáanlegur,“ segir einnig í dóminum.

Með aðalhlutverk fara þau Hjörtur Jóhann Jónsson og Heiðdís Chadwick en gagnrýnandi Morgunblaðsins segir Hjört Jóhann halda myndinni uppi en tökuvélin er nánast alltaf á honum.

Í öðrum hlutverkum eru Anna Sigrún Fannarsdóttir, Steindi Jr., Guðmundur Ingi Þorvaldsson, Kristbjörg Kjeld og Jóhann Sigurðsson.

Erfitt að horfa

Í samtali við K-100 ræðir Hjörtur um áhuga sinn á hrollvekjum: „Ég hef rosalegan áhuga á hryllingsmyndum og ég dýrka þær en ég á bara erfitt með að horfa á þær. Ég er með áfallastreituröskun. Ég verð bara svo hræddur. Það situr í mér dögum saman og ég verð andvaka,“ sagði Hjörtur við útvarpsstöðina.