Titanic leikkona látin – 100 ára

Hollywood leikkonan Gloria Stuart er látin 100 ára að aldri. Stuart greindist með brjóstakrabba fyrir fimm árum síðan, en sigraðist á meininu.

Stuart var ein af lykilleikkonum í Hollywood á fjórða áratug síðustu aldar, en sló í gegn á ný í stórmyndinni Titanic árið 1997 þar sem hún lék konu sem komst lífs af úr Titanic slysinu.

Stuart fæddist þann 4. júlí árið 1910 í Santa Monica í Kaliforníu í Bandaríkjunum og lærði leiklist og heimspeki í háskóla áður en hún hóf leikferil sinn, fyrst í leikhúsum en síðar í bíómyndum í Hollywood.

Á meðal fyrstu mynda sem hún lék í voru hryllingsmyndir eins og The Invisible Man, sem og myndir eins og Poor Little Rich Girl, þar sem hún lék á móti Shirley Temple, og Gold Diggers.

Þegar samningur hennar við Universal kvikmyndaverið rann út á fimmta áratug síðustu aldar, fór hún að leika minna og minna í kvikmyndum, og tók til við listmálun. Hún hætti að leika í kvikmyndum árið 1946 en sneri aftur 30 árum síðar og lék þá í sjónvarpsmyndum fram á níunda áratuginn.

James Camoron hóaði svo í hana til að leika í Titanic árið 1997, en þá var hún 87 ára gömul. Hún fékk Óskarstilnefningu fyrir leik sinn í myndinni, og varð þar með elsta leikkonan í sögunni til að vera tilnefnd til þeirra verðlauna.

Í Titanic lék hún sömu persónu og Kate Winslet lék, en á efri árum.

Eftir Titanic lék hún í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsmyndum til viðbótar.

Hún giftist tvisvar, fyrri maðurinn hét Blair Gordon Newell, en sá seinni Arthur Sheekman. Hann lést árið 1978.