Þessi grein birtist fyrst í septemberhefti Mynda mánaðarins.
About Time er nýjasta myndin úr smiðju leikstjórans og handritshöfundarins Richards Curtis sem stóð að baki myndum eins og Four Weddings and a Funeral, Love Actually og Notting Hill.
Þeir sem kunna að meta rómantískar gamanmyndir upp á breska mátann eiga von á góðu í október þegar About Time verður frumsýnd í kvikmyndahúsum hér á landi. Þetta er fyndin og hlý mynd með óvenjulegum söguþræði sem Íslendingar eiga örugglega eftir að kunna að meta og í aðalhlutverkum eru þau Domhnall Gleeson, Bill Nighy og Rachel McAdams. Að baki þeim í aukahlutverkum er síðan valinkunnur hópur breskra gæðaleikara.
Myndin segir frá lögfræðinemanum Tim Lake sem ekki hefur haft lukkuna með sér hingað til í kvennamálunum, en það lukkuleysi má auðveldlega rekja til þess hversu feiminn og óframfærinn hann er í samskiptum við hitt kynið. Dag einn ákveður faðir hans að segja honum dálítið leyndarmál. Þannig er að karlmenn í þeirra ætt hafa ætíð getað ferðast til baka í tímann og þar með breytt atburðarásinni í eigin lífi. Þessu á Tim erfitt með að trúa í fyrstu en kemst að því í fyrstu tilraun að þetta er rétt. Hann getur í raun ferðast aftur í tímann! Skömmu síðar hittir Tim hina brosmildu og skemmtilegu Mary og verður ástfanginn upp fyrir haus. En vegna klaufaskapar kemst hann lítt áleiðis og ákveður því að fara aftur í tímann til að fá annað tækifæri á að heilla dísina. Það tekst upp að vissu marki en tímaferðalögunum fylgja hins vegar talsverðar hliðarverkanir því um leið og maður breytir einhverju hjá sjálfum sér í fortíðinni er maður um leið að breyta ýmsu hjá öðrum og það er erfitt að leiðrétta.
About Time hefur fengið afar góða dóma, ekki síst leikur Domhnalls Gleeson í hlutverki Tims, en hann er eins og margir vita sonur írska gæðaleikarans Brendans Gleeson og þykir sanna það hér að hann er enginn eftirbátur föður síns í leiklistinn