Patty Jenkins hefur hætt við að leikstýra Marvel myndinni Thor 2. Hún hafði verið að undirbúa myndina frá því í október, en er sögð hafa gengið burt frá myndinni vegna „listræns ágreinings“ (creative difference) sem segir okkur náttúrulega ekki neitt. Þetta er talsvert áfall fyrir Marvel, en leitin að nýjum leikstjóra er þegar hafin. Myndin á að koma út eftir minna en tvö ár, í nóvember 2013, og fyrir stórmynd af þessu tæi er ekki seinna vænna að hefjast handa (en hey, Matthew Vaughn var ráðinn á X-Men: First Class með rétt svo eitt ár til stefnu). Þeir geta þó alltaf frestað myndinni, hafa þegar gert það einu sinni. Þangað til, munum við náttúrulega sjá Thor í The Avengers, sem væntanleg er í maí næstkomandi.
Jenkins er ekki fyrsti leikstjórinn sem labbar frá verkefninu, en Brian Kirk (Game of Thrones) hafði áður slitið viðræðum um að taka myndina að sér. Eins og áður sagði er ekki vitað hvað olli brotthvarfi hennar, en bæði Kenneth Branagh (leikstjóri Thor) og Tom Hiddleston (Loki) höfðu ekkert nema góða hluti haft að segja um Jenkins í viðtölum. Þá voru margir ánægðir með að hún hefði orðið fyrsti kvenleikstjórinn til að gera stóra ofurhetjumynd. Deadline, sem voru fyrstir með fréttina, segja þó að framtíðin sé björt hjá Jenkins, og hún gæti jafnvel endað á því að taka að sér aðra stórmynd, sem yrði ekki framhald. Einhverjar hugmyndir um hver yrði góður arftaki Kenneth Branagh?