Þegar koma þarf í veg fyrir sölu á nýrri gereyðingartækni í kapphlaupi við vopnasalann og milljarðamæringinn Greg Simmonds (Hugh Grant) dugar ekkert minna en að fá súpernjósnarann, Orson Fortune (Jason Statham) í málið. Þetta er það sem kvikmyndin Operation Fortune fjallar um en myndin kom í bíó nú um helgina.
Hann lætur tregur til leiðast og fær í lið með sér einvalalið bestu útsendara í heiminum. Hann virkjar líka með sér stærstu stjörnuna í Hollywood, Danny Francesco (Josh Hartnett) í leiðangurinn til að bjarga heiminum.
MI6 fulltrúinn Orson Fortune og teymi hans ráða eina stærstu kvikmyndastjörnu í Hollywood til að hjálpa sér í háleynilegu verkefni, þegar sala á stórhættulegri nýrri vopnatækni ógnar öllum heiminum....
Ekki til óprúttinna aðila
Málið snýst um að ná aftur stolnum hlut, sem kallaður er „The Handle“. Hvorki skuggalega leyniþjónustan sem stendur á bak við aðgerðina né teymið sem á að ná hlutnum vita hvað þetta andstyggilega fyrirbæri er. Öllum er hins vegar kunnugt um að verðmiðinn er tíu milljarðar Bandaríkjadala og „The Handle“ má alls ekki komast í hendur óprúttinna aðila.
Fyrst saman í frumrauninni
Leikstjórinn, Guy Ritchie, og Jason Statham unnu fyrst saman í myndinni Lock, Stock and Two Smoking Barrels, sem var frumraun Ritchies í leikstjórn og myndin sem gerði Statham að stjörnu. Þeir unnu líka saman í Snatch, sem sló heldur betur í gegn, auk þess að gera saman Revolver og nýlega tryllinn Wrath of Man.
Í Operation Fortune færa þeir félagar okkur njósnatrylli sem heldur betur passar inn í Guy Ritchie-stílinn sem leyfir spennunni og kímninni að njóta sín þannig að þær styðja hvor aðra.
Aðalhlutverk: Aubrey Plaza, Hugh Grant, Jason Statham, Euginia Kuzmina, Cary Elwes og Josh Hartnett
Handrit: Ivan Atkinson, Marn Davies og Guy Ritchie
Leikstjórn: Guy Ritchie