The Sisters Brothers fá Gyllenhaal – Myndin gerist árið 1851

Bandaríski Everest leikarinn Jake Gyllenhaal hefur gengið til liðs við kvikmyndina The Sisters Brothers, en þar eru fyrir leikararnir Joaquin Phoenix og John C. Reilly.

Leikstjóri er Dheepan leikstjórinn Jacques Audiard, sem byggir myndina á samnefndri skáldsögu Patrick deWitt.

Myndin fjallar um tvo bræður, Eli og Charles Sisters, sem eru ráðnir til að drepa gullgrafara sem stal frá yfirmanni þeirra.

Myndin gerist í Oregon fylki í Bandaríkjunum árið 1851.

Skáldsaga deWitt fékk Stephen Leacock Memorial verðlaunin árið 2012 fyrir grínskrif.

Þetta verður fyrsta mynd Audiard eftir fyrrnefnda verðlaunamynd hans, Dheepan, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2015 og vann Gullpálmann, aðalverðlaun hátíðarinnar.

Tökur hefjast í sumar.

Myndin, sem verður svarthvítur vestri, verður fyrsta mynd leikstjórans á ensku.

Gyllenhaal átti gott ár í fyrra, lék í Demolition og Nocturnal Animals og er með þétta dagskrá framundan á þessu ári. Næsta mynd hans heitir Life, þar sem hann leikur á móti Ryan Reynolds. Life kemur í bíó 24. mars nk.

Þá leikur hann í myndinni Stronger sem fjallar um hryðjuverkaárásina í Boston maraþonhlaupinu. Ennfremur er væntanlegt frá honum Netflix dramað Okja og myndin sem Paul Dano leikstýrir; Wildlife.

Gyllenhaal, sem er 36 ára, lætur ekki hér við sitja heldur leikur hann um þessar mundir á sviði á Broadway í New York í leikritinu Park With George.