Það fór eins og margan grunaði; Íslendingar flykktust í stórum stíl á The Simpsons Movie um helgina til að berja augum uppáhalds vandræðafjölskylduna í öllu sína veldi á hvíta tjaldinu. Eftir hartnær 20 ára sigurgöngu sjónvarpsþáttarins hefur biðin verið löng, en greinilega þess virði, því að kvikmyndin er greinilega að hitta beint í mark hjá landanum og sló um helgina fjölmörg aðsóknarmet.
Hvorki fleiri né færri en 16.007 Íslendingar sáu myndina um helgina á aðeins 3 dögum og halaði hún inn rúmlega 12.5 milljónir króna. Þetta þýðir að myndin hefur sett eftirfarandi fimm aðsóknarmet hérlendis:
– Stærsta fyrsta sýningarhelgi allra tíma á teiknimynd
– Stærsta fyrsta sýningarhelgi allra tíma á kvikmynd sem er ekki framhaldsmynd
– Stærsta sýningarhelgi allra tíma sem ber ekki upp á almennum frídegi
– Stærsta sýningarhelgi allra tíma yfir sumartímann (maí-ágúst)
– 5. stærsta sýningarhelgi allra tíma
Auk þess var hér um að ræða langstærstu sýningarhelgi ársins og skjóta Homer og fjölskyldan hans þar með öllum öðrum stórmyndum sumarsins ref fyrir rass.
Gaman er frá því að segja að myndin er að sama skapi að fá gríðarlega jákvæða dóma frá gagnrýnendum landsins og ekki síst íslenska talsetningin með Erni Árnasyni í broddi fylkingar.

