The Hobbit lítur dagsins ljós

Það er komið að því. Sýnishornið fyrir stærstu mynd ársins 2012 er komið á netið. The Hobbit: An Unexpected Journey lætur sjá sig á bíótjöldum eftir rúmt ár, og fyrsta stiklan svíkur ekki væntingar. Ekki er þörf á lengri inngangi, hér er myndbandið:

Þetta er fyrsta almennilega efnið úr myndinni sem við sjáum, þó betur fer hafi Peter Jackson verið duglegur að sýna okkur bakvið tjöldin. Að mínu mati stendur það fyllilega fyrir sínu. Martin Freeman tekur fullkomlega við hlutverki Bilbó af Ian Holm, dvergarnir koma vel út og eru ekki allir klónar af Gimli. Myndin gerist samt bersýnislega í sama heimi og Hringadróttinssaga. Héraðið, Rofadalur, Gollrir, Gandálfur og Galadríel (hvað er hún að gera þarna?) er allt nákvæmlega eins og það var. Það væri kannski áhyggjuefni, en ég hef fulla trú á Jackson og félögum til að gera það sem þarf til að láta myndina standa á eigin fótum. Ein pæling, fyrst að tekið er augnablik til að sýna brotið sverð Elendíls á stallinum í Rofadal, ætli Aragorn muni eitthvað koma söguþræðinum við? Kannski ekki líklegt, við höfum ekkert heyrt um að Viggo Mortensen verði í myndinni. Stenst stiklan væntingar? Haldið þið að myndin muni gera það?