Óskarsverðlaunaleikarinn Jeff Bridges, sem vann Óskarinn í fyrra fyrir að leika kántríhetju í Crazy Heart, mun í sumar, gefa út plötu í fyrsta sinn hjá stóru útgáfufyrirtæki, að því er fram kemur í tilkynningu frá Blue Note plötufyrirtækinu.
Bridges vann að verkefninu með upptökustjóranum T-Bone Burnett, sem sjálfur vann Óskar fyrir að semja ásamt öðrum aðallag Crazy Heart myndarinnar; The Weary Kind.
Bridges samdi sjálfur hluta af efninu á plötunni auk þess sem hann tekur lög eftir aðra, eins og Tom Waits og Stephen Bruton, sem samdi tónlistina í Crazy Heart ásamt Burnett.
Gestir á plötunni verða meðal annars Rosanne Cash, elsta dóttir kántrýhetjunnar Johnny Cash, og fyrrum eiginkona Burnetts, Sam Phillips.
Ekkert hefur verið látið uppi með nafn á plötunni, né hefur neitt verið sagt um hvað lögin eigi að heita.
Burnett og Bridges hafa verið vinir í meira en 30 ár, en Burnett sá um tónlist í hinni goðsagnakenndu Bridges mynd The Big Lebowski, þar sem Jeff Bridges leikur slugsarann „The Dude“.
Bridges gaf síðast út plötu árið 2000 sem heitir Be Here Soon.