Samkvæmt orðrómi frá MTV er ofurleikstjórinn Christopher Nolan búinn að sýna hausunum hjá Warner Bros. grófklippta útgáfu af The Dark Knight Rises. Vitaskuld er ekki vitað mikið um helstu smáatriði frá þeim en það sem menn vita hins vegar er að útgáfan sem Nolan sýndi var næstum því fjórir klukkutímar að lengd!
Augljóslega kæmi aldrei til greina að gefa út þessa mynd í slíkri lengd en samkvæmt orðróminum var nóg um að vera á þessum fjórum tímum og þykir ekki líklegt að Nolan sætti sig við annað en að myndin svífi í kringum þriggja tíma mörkin.
Joss Whedon, leikstjóri The Avengers, gaf það einmitt sjálfur upp nú á dögunum að grófklippta útgáfan á sinni mynd væri u.þ.b. þrír tímar, eða um klukkutíma styttri heldur en The Dark Knight Rises. Í dag er búið að gefa upp að heildarlengdin á The Avengers sé í kringum 135 mínútur, og miðað við rennslið á sögunni um Leðurblökumanninn má vel búast við því að leikstjórinn sé búinn að pakka svakalegu innihaldi í þessa mynd, eða það vonar maður.
Hinar myndirnar í þríleiknum voru töluvert styttri heldur en lokamyndin verður, eins og staðan er í dag. Batman Begins var tæplega 140 mínútur á meðan The Dark Knight rétt slapp yfir tvo og hálfan tíma með lokatextanum.
Burtséð frá því hvort The Dark Knight Rises verði þrír tímar eða ekki (sem myndi augljóslega þýða að framleiðendur myndu sleppa stórum hlunk úr sögunni) þá er ljóst að bæði Batman- og Nolan-aðdáendur geta átt von á miklu kjöti á beinunum (eða kannski Bane-unum?) í þessari mynd sem lofar að loka sögunni með látum og glæsibrag.
Myndin verður frumsýnd í júlí á þessu ári og eru flestir sammála um að enn sé alltof langt í þessa blessuðu bíómynd, sem mun svo sannarlega láta í sér heyra þegar nær dregur. Ætli þetta verði Gone with the Wind ofurhetjumyndanna?