Tarantino segir frá uppáhalds persónunni

Bandaríski leikstjórinn Quentin Tarantino hefur síðustu tvo áratugina skapað ýmsar mjög eftirminnilegar persónur í myndum sínum, og margar eru þær villtar, hroka-og ofbeldisfullar, svo eitthvað sé nefnt.

Tarantino kom fram á kvikmyndahátíðinni í Jerúsalem nú á dögunum, þar sem hann var staddur til að halda stutta ræðu á undan sýningu á mynd sinni Pulp Fiction frá árinu 1994, á 35 mm sniði, og var þá spurður að því hver af persónunum sem hann hefur skapað, væri í uppáhaldi hjá honum sjálfum.

hans landa waltz

Eins og blaðamaður Screen Daily, Tom Grater segir frá því, þá sagði Tarantino að besta persónan sem hann hefði búið til væri Hans Landa, nasistaóbermið úr Inglourious Besterds, sem Christoph Waltz lék, og fékk síðan Óskarsverðlaun fyrir.

„Landa er besta persónan sem ég hef búið til, og hugsanlega sá besti sem ég mun nokkru sinni búa til. Ég áttaði mig ekki á [þegar ég var að búa hann til] að hann væri tungumálaséní. Hann er líklega einn af örfáum Nasistum í sögunni sem gat talað jiddísku eins og innfæddur.“

Þrátt fyrir ást Tarantino á Landa, þá munaði minnstu að persónan, og myndin öll, færi á hilluna, af því að honum gekk bölvanlega að finna rétta leikarann í hlutverkið.

„Ég var orðinn áhyggjufullur. Ef ég finndi ekki fullkominn Landa, þá ætlaði ég að hætta við myndina. Ég gaf mér eina viku til viðbótar, og svo ætlaði ég að hætta við allt saman. Þá kom Christoph Waltz inn um dyrnar, og það var strax augljóst að hann var þessi persóna; hann gat allt. Hann var ótrúlegur, og hann gaf okkur myndina aftur.“

Hér fyrir neðan má sjá Landa í essinu sínu: