Fyrr í vikunni hófst CinemaCon afþreyingarráðstefnan í Las Vegas, en hún er stærsta ráðstefna af þessu tagi fyrir eigendur kvikmyndahúsa, vítt og breitt.
Framleiðslufyrirtækið Sony Pictures bauð upp á leynigest í pallborðsumræðum, engan annan en kvikmyndaleikstjórann Quentin Tarantino, sem nú vinnur að mynd sinni Once Upon a Time in Hollywood, auk þess sem Tarantino leikarinn Leonardo DiCaprio mætti á svæðið.
Kvikmyndin, sem byrja á að taka upp í sumar, á að gerast árið 1969, og fjalla um eina mest umtöluðu atburði þess árs, hin svokölluðu Manson morð.
Á ráðstefnunni var skiljanlega ekki hægt að bjóða upp á nein sýnishorn úr myndinni, en í staðinn voru sýnd sýnishorn úr eldri myndum leikstjórans. Í pallborðsumræðunum þá líkti Tarantino nýju myndinni við hina sígildu Pulp Fiction, sem kom Tarantina rækilega á kortið á sínum tíma, en myndin var frumsýnd árið 1994.
„Myndin gerist árið 1969 í Hollywood, þegar menningin er að breytast, með frjálsum ástum og hippabyltingunni. Í sumar, smátt og smátt, skref fyrir skref, munum við umbreyta Los Angeles í vitundarvíkkandi Hollywood ársins 1969.“
Kynningarmyndbandið sem sýnt var með sýnishornunum úr fyrri myndum leikstjórans, staðfesti að bæði Leonardo DiCaprio og Brad Pitt, myndu leika í myndinni, en ekki Margot Robbie, sem sagt hefur verið að ætti að leika Sharon Tate, eitt fórnarlamba Manson gengisins.
Tarantino var fámáll þegar kom að því að ræða smáatriði í sögunni í myndinni, en sagði að aðferðin sem notuð yrði, yrði svipuð og í Pulp Fiction þar sem sögubrotum er raðað saman, og ekki endilega í réttri röð.
Kvikmyndin mun fjalla um Rick Dalton, sem DiCaprio leikur, fyrrum aðalleikara vinsælla vestrasjónvarpsþátta, og áhættuleikara hans og staðgengil, Cliff Booth, sem Pitt leikur, en þeir eru báðir að basla við að reyna að fá hlutverk í Hollywood. Nágranni Rick er Sharon Tate.
Tarantino bætti því við að það væri erfitt að ræða mynd sem ætti eftir að gera, en hann væri spenntur fyrir því að vinna með leikurunum á nýjan leik.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Pitt og DiCaprio leika saman í kvikmynd.
Pitt lék aðalhlutverkið í Inglorious Basterds og DiCaprio lék aðalhlutverkið í Django Unchained.
Eins og bent er á á Deadline kvikmyndavefnum, þá vildi Tarantino koma því að í umræðunum, að hann væri sjálfur eigandi kvikmyndahúss, The New Beverly Theater in Los Angeles, og lofaði gestina í salnum fyrir að halda á lofti kvikmyndaupplifun í bíósölum.