Tarantino hjálpar Guðmundi Felix

Guðmundur Felix Grétarsson fékk á dögunum veglega gjöf frá aðstandendum kvikmyndarinnar Django Unchained eftir kvikmyndaleikstjórann Quentin Tarantino. Um er að ræða forláta klapptré sem er áritað af Tarantino og öllum helstu stjörnum myndarinnar, þeim Leonardo DiCaprio, Christoph Waltz, Jamie Foxx, Samuel L. Jackson, Kerry Washington, James Remar, Dennis Christopher og Walton Goggins.


Guðmundur Felix missti báða handleggi rétt neðan við axlir í vinnuslysi þann 12. janúar 1998. Hann hefur stefnt ötullega að því allar götur síðan að fá grædda á sig nýja handleggi, en hefur ekki átt möguleika á aðgerðinni fyrr en nú. Hún verður framkvæmd af helstu sérfræðingum heims á þessu sviði í Lyon í Frakklandi.

Í tilkynningu frá Senu segir að Tarantino og leikarar kvikmyndarinnar hafi fengið fregnir af fyrirhugaðri handaágræðslu Guðmundar og árituðu handa honum klapptréð. Aðgerðin er mjög kostnaðarsöm og því hefur Guðmundur ákveðið að selja klapptréð til að afla fjár. Upphæðin rennur svo óskipt í söfnun Guðmundar til að draumur hans geti orðið að veruleika.

Uppboð á klapptrénu er hafið á eBay.

Django Unchained verður frumsýnd í dag í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Egilshöll og Borgarbíói Akureyri.