Leikstjórinn góðkunni Quentin Tarantino hefur höfðað mál á grundvelli höfundarréttarbrota gegn vefsíðunni Gawker Media fyrir að dreifa handriti sínu að kvikmyndinni The Hateful Eight.
„Gawker Media er fyrirtæki sem græðir mikið af peningum með því að brjóta gegn fólki, í þetta skipti gengu þeir of langt.“ segir m.a. í málssókninni.
Tarantino varð bæði miður sín og reiður þegar hann frétti að handriti hans hefði verið lekið til fjölmargra í kvikmyndageiranum í Hollywood. Handritið rataði að lokum til Gawker Media og settu þeir það á heimasíðuna sína undir yfirskriftinni „Hérna er handritið að Hateful Eight, eftir Tarantino.“
Eins og staðan er núna þá hefur Gawker Media ekki tekið fréttina niður og benda þeir á að þeir séu ekki að brjóta nein lög, því þeir vísa aðeins á annað lén sem hýsir handritið.
Hér má sjá frétt Gawker Media sem Tarantino höfðar mál gegn.