Kvikmyndin Teorema eftir ítalska kvikmyndaleikstjórann, skáldið og hugsuðinn Pier Paolo Pasolini verður sýnd í í Lögbergi, stofu 101, mánudaginn 22. október kl. 18:00 í tilefni af XII Viku ítalskrar tungu. Aðgangur er ókeypis. Það er félagið Marco Polo ásamt kennurum í ítölsku við Háskóla Íslands er standa fyrir sýningunni.
Myndin fjallar um dularfullan gest sem dvelur hjá ríkri og borgaralegri fjölskyldu í Mílanó. Smá saman tekst honum að táldraga alla meðlimi hennar og vinnukonuna.
Hann er ekki kristur
Í fréttatilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar er vitnað í viðtal við leikstjórann í New York Times: „Er gesturinn guð eða djöfull, ég læt áhorfendum eftir að dæma það. Hann er ekki Kristur. Aðalatriðið er að hann er helgur og kemur að handan“, sagði Pasolini í viðtali við New York Times. „Öll trúarbrögð rekja rætur sínar til bændasamfélagsins. Þau eru því í kreppu nú um stundir. Við erum á leið frá heimi búskapar til iðnaðar. En þessi jarðbundni heimur getur ekki dáið. Bændamenningin býr með okkur innst inni. Hún er niðurgrafin ásamt tilfinningunni fyrir því heilaga í brjósti versksmiðjueigandans og fjölskyldu hans í TEOREMA“.
Í tilkynningunni segir að Pier Paolo Pasolini sé talinn einn af merkustu listamönnum og hugsuðum Ítalíu á 20. öld. „Hans er minnst sem einstaklega fjölhæfs og umdeilds menningarfrömuðar, en hann lét til sín taka sem skáld, rithöfundur, blaðamaður, leikhúsmaður, málfræðingur og kvikmyndahöfundur. Sívaxandi áhugi er á lífi hans og verkum,“ segir í tilkynningunni.