Drive er án nokkurs vafa ein af umtöluðustu myndum ársins 2011 og liggja ýmsar ástæður þar að baki. Fyrst og fremst er það rafmagnaða, dáleiðandi tónlistin sem talin er einkenna afslappaða artí tón myndarinnar. Síðan hefur aðalleikari myndarinnar, Ryan Gosling, fengið stórt klapp á bakið fyrir trúverðuga frammistöðu sem sýnir að hann er miklu meira en bara sætt andlit. En umfram allt er meirihluti áhorfenda einfaldlega bara sammála um það að Drive er með því ferskasta og athyglisverðasta sem hefur komið í bíó síðustu mánuði.
Myndin lenti á fleiri en 25 topplistum yfir tíu bestu myndir síðasta árs að mati heimsþekktra gagnrýnenda og sex af þessum listum skelltu myndinni í efsta sætið. Leikstjóri myndarinnar er naglharður, danskur fagmaður að nafni Nicolas Winding Refn, sem er einnig þekktur fyrir marglofaða en miskunnarlausa Pusher-þríleikinn.
Drive segir annars í stuttu máli frá ónefndum áhættuleikara í Hollywood sem vinnur sér inn smávegis aukapening sem flóttaökumaður. Umræddur maður er algjör meistari undir stýri og er talinn vera einn sá besti í bransanum. Eftir að eitt ránið sem hann var ráðinn til að hjálpa með fer heiftarlega úr böndunum uppgötvar hann að búið er að setja verðlunafé til höfuðs honum. Fer þá allt gjörsamlega úr böndunum og eina leiðin til að redda sér úr málunum er að berjast á móti með hörku og vernda þá sem eru honum næstir. Ökufanturinn er vissulega leikinn af sjálfum Gosling en með önnur hlutverk fara þau Carey Mulligan, Ron Perlman, Christina Hendricks, Bryan Crantson og Albert Brooks sem er tilnefndur til Óskars í ár sem besti leikari í aukahlutverki.
Kvikmyndir.is er í gjafmildu skapi núna næstu daga og þess vegna ætlum við að leyfa fáeinum notendum að slást um DVD eintak af Drive, sem kemur út í dag. Leikurinn verður í gangi út helgina og verður reglulega dreginn út vinningshafi á hverjum degi þangað til.
Það verða engar spurningar að þessu sinni, en ef þig langar í eintak þá viltu klárlega komast í pottinn okkar. Leikurinn verður með svolítið skemmtilegu sniði núna, og til að eiga séns á því að komast í þennan umrædda pott er þrennt sem þú getur valið úr til að gera:
– Sendu tölvupóst (tommi@kvikmyndir.is) sem segir hvaða Óskarstilnefningar þér finnst Drive hafa átt skilið að fá núna í ár.
– Sendu ljósmynd af þér í þinni flottustu Ryan Gosling-pósu? (þarna erum við að tala um töffaraskap í hámarki – á bakvið stýrið með dauðan svip, í flottum jakka)
– Sendu okkur póst sem segir hvaða tvær Ryan Gosling-myndir eru í mestum metum hjá þér og hvers vegna (ATH. Drive þarf ekki endilega að fylgja með þarna).
Gangi ykkur vel og keyrið varlega (en töffaralega)
(PS. ég lofa ykkur a það styttist í það að við hjá síðunni förum loksins að gefa Blu-Ray – um leið og landinn tekur almennilega þátt í slíkum getraunum)
Verður maður svo ekki að leyfa brot af soundtrack-inu að fylgja með??
Ég held það nú.