Svona átti Black Widow upphaflega að deyja í Avengers: Endgame – Myndband

Stórmyndir fara í gegnum ýmiss konar breytingar á meðan á framleiðsluferli stendur. Risamyndin Avengers: Endgame er alls ekki undantekning frá þeirri reglu og úr fjölmörgum senum spilaðist öðruvísi áður en lokaklippinu var læst.

Á meðal þeirra er atriðið þar sem Black Widow (Scarlett Johansson) ákveður að fórna sér fyrir sálarsteininn svonefnda, en margir vilja meina að það sé með áhrifaríkari senum Endgame. Aðdáendur Marvel-myndanna urðu margir hverjir meyrir þegar þeir sáu senuna eins í sínu upphaflega formi, en áskrifendur Disney+ fengu að gægjast á bak við tjöldin og skoða hvernig áður stóð til að útfæra átökin áður en atriðinu var breytt í endurtökum. Virðast flestir vera sammála um að upprunalega senan sé töluvert grimmari.

Hér má sjá þá umræddu senu.

https://twitter.com/MCUPerfectClips/status/1248308768267476999

Í samtali við tækni- og vefritið Inverse sagði Anthony Russo, annar leikstjóri kvikmyndarinnar, að ákveðinn kraft vantaði í senuna eins og hún var fyrst kvikmynduð. „Við vildum leyfa atriðinu að snúast um Black Widow og Hawkeye, persónu sem hún hafði átt svo náið samband með. Síðan klippum við skyndilega á milli þeirra og skósveina Þanosar, sem áhorfandinn hefur enga tengingu við. Við fórum að kasta fram hugmyndum og datt í hug að besta útgáfan af þessari senu væri á milli Hawkeye og Black Widow,“ sagði Anthony.

Hér má sjá senuna eins og hún kom út í lokaklippi myndarinnar.

https://www.youtube.com/watch?v=Sjt512sUkt4

Upphaflega stóð til að frumsýna sjálfstæðu kvikmyndina um Black Widow í lok apríl. Kórónuveiran og samkomubann hafa sett margt á hvolf víða um heim og mega aðdáendur nú búast við myndinni í nóvember næstkomandi, að öllu óbreyttu.

Black Widow kvikmyndin er sögð kosta í kringum 200 milljónir Bandaríkjadala og getur Disney þar af leiðandi búist við talsverðu tapi. Þó er mjög líklegt að myndin muni njóti gífurlegra vinsælda þegar áhorfendur fá að loksins tækifæri til að sjá hana. Þetta er 24. myndin frá Marvel stúdíóinu og er sögð gerast stuttu eftir atburði Captain America: Civil War. Auk Johansson fara þau Florence Pugh, David Harbour, William Hurt, Ray Winstone og Rachel Weisz með stór hlutverk í myndinni.