Þessi grein birtist fyrst í júlíhefti Mynda mánaðarins.
Einn af óvæntustu smellum ársins 2009 var hin frábæra mynd District 9 eftir suðurafríska leikstjórann og handritshöfundinn Neill Blomkamp, en hún var m.a. tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna, þar á meðal sem besta mynd ársins, og er að margra mati ein besta og frum-legasta vísindaskáldsaga síðari ára.
District 9 var gerð fyrir 30 milljónir dollara, en halaði síðan inn rúmlega 210 milljónir í kvikmyndahúsum. Það er því ekki að undra að stóru fyrirtækin í Bandaríkjunum fengju áhuga á hinum 29 ára gamla leikstjóra og nú í ágúst,
þremur árum síðar, sendir hann frá sér myndina Elysium sem kunnugir segja að eigi eftir að taka kvikmyndaheiminn með trompi. Það á auðvitað eftir að koma í ljós en eitt er alveg víst og það er að stiklan úr myndinni, þar sem handbragðið úr District 9 leynir sér ekki, er algjörlega geggjuð. Horfðu endilega á hana og hækkaðu í botn!
Myndin gerist annars árið 2154 þegar mannkyninu hefur verið skipt í tvær stéttir. Annars vegar er það fólkið sem lifir í þrældómi og neyð á jörðu niðri og hins vegar er það elítan sem hefur komið sér fyrir í risastórri geimstöð utan við gufuhvolfið og lifir þar í algjörum vellystingum og munaði.
Matt Damon leikur Max De Costa sem ákveður af hálfgerðri neyð að bjóða fyrirfólkinu í geimstöðinni byrginn, en þar ræður ríkjum hin eitil-harða Rhodes (Jodie Foster) sem er síður en svo til í að láta lágstéttina komast upp með eitthvert múður og hefur sér m.a. til halds og trausts hinn ofurmannlega bardagakappa Kruger, en hann er leikinn af Shartlo Copley sem fór einmitt með aðalhlutverkið í District 9.