Spennumyndin The Gunman, með Óskarsverðlaunahöfunum Sean Penn og Javier Bardem, verður frumsýnd á morgun, föstudaginn 20. mars. Myndin verður sýnd í Laugarásbíói, Smárabíói, Háskólabíói og Borgarbíói Akureyri.
Sean Penn er hér í essinu sínu í hörku spennutrylli frá leikstjóra fyrstu Taken-myndarinnar, eins og segir í tilkynningu frá Myndformi.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Penn leikur Martin Terrier, þaulreyndan fyrrum sérsveitarmann og leigumorðingja. Hann er þjáður andlega eftir langan feril og hyggst hætta í bransanum til að geta lifað lífinu með kærustu sinni (Jasmine Trinca). Það er hinsvegar hægara sagt en gert og fer öll áætlunin úrskeiðis þegar fyrirtækið sem hann vinnur fyrir svíkur hann. Fyrr en varir er Terrier tilneyddur að leggja á flótta um Evrópu á meðan hann eltir upp þá sem komu sökinni á hann.
Með önnur hlutverk í myndinni fara hinir eitursvölu Idris Elba, Ray Winstone og Javier Bardem.
Áhugaverðir punktar:
– The Gunman er byggð á næstsíðustu bók franska rithöfundarins JeanPatricks Manchette, La Position du tireur couché, sem kom út árið 1981, en Jean-Patrick var að margra mati brautryðjandahöfundur í hasar- og glæpasagnabókmenntum. Á ensku nefnist bókin The Prone Gunman.
– Sean Penn keypti sjálfur kvikmyndaréttinn að bókinni og er aðal-framleiðandi myndarinnar ásamt Joel Silver og Andrew Rona.
– Flest útiatriði myndarinnar voru tekin upp í Barcelona.