Sverðamaðurinn úr Indiana Jones látinn

Maðurinn sem kom fram í einni minnisstæðustu senunni í fyrstu Indiana Jones myndinni, og mundaði þar bjúgsverð af mikilli fimi, áður en Harrison Ford í hlutverki Jones,  lyfti byssunni og skaut hann sallarólegur, Terry Richards, er látinn, 81 árs að aldri.

844102ec8e0c109103f6e6ae80fae09dcc82bacc

Terry átti að baki fimm áratuga langan leikferil, og átti einnig í höggi við fjóra James Bond leikara í níu James Bond myndum.

„Hann barðist við Indiana Jones, James Bond, Loga geimgengil og Rambo – það eru ekki margir sem geta státað af því,“ sagði sonur hans Terry Richards Jr. við BBC.

Meðal annarra mynda sem hann lék í voru The Avengers, The Princess Bride, Zulu og The Dirty Dozen. Hann kom einnig fram sem staðgengill leikara eins og Donald Sutherland, Tom Selleck og Christopher Lee.

Richard hét upphaflega David Terence Richards og fæddist í suðurhluta Lundúna árið 1932. Hann lék í sinni fyrstu mynd árið 1957 þegar vinur hans í velsku lífvarðasveitinni sagði honum að það væri verið að leita að aukaleikurum með herþjálfun, til að leika í kvikmynd.

„Hann fékk aukalega borgað fyrir að láta sig detta af stillönsum í óeirðasenu, og þannig hófst ferill hans sem áhættuleikari í bíómyndum,“ sagði tengdadóttir hans, Lisa Thomas.

Hann lék í um 100 myndum, og kom síðast fram í Bond myndinni Tomorrow Never Dies árið 1997, þar sem hann slóst við Pierce Brosnan í hljóðveri.

„Hann hefur verið dreginn á eftir bílum, dottið af húsum, skotinn, stunginn,“ sagði sonur hans. „Hann stóð alltaf upp á ný eftir þetta, en nú er komið að leiðarlokum, og hann stendur ekki upp á ný.“

Kíktu á frægasta atriði Richards hér fyrir neðan: