Styttist í frumsýningu Roklands – ný heimasíða

Ný íslensk kvikmynd, Rokland, í leikstjórn Marteins Þórssonar verður frumsýnd 14. janúar næstkomandi. Búið er að setja upp sérstaka vefsíðu fyrir myndina, www.rokland.is, en þar er ýmislegt hnýsilegt að finna, svo sem stiklu úr myndinni, söguþráðinn, upplýsingar um leikstjórann og síðast en ekki síst viðtöl við leikara og aðra aðstandendur myndarinnar sem rétt er að hvetja fólk til að kíkja á.

Myndin var forsýnd í Sauðárkróksbíói 29. desember síðastliðinn við góðar undirtektir. Rokland er byggð á hinni frábæru bók Rokland eftir Hallgrím Helgason og segir frá Bödda, sem leikinn er af Ólafi Darra Ólafssyni, sem kemur heim til Sauðárkróks eftir tíu ára námsdvöl í Þýskalandi og fer að kenna við Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra. Böddi hyggst breyta hugsunarhætti Íslendinga og predikar háleitar hugsjónir á bloggsíðu sinni við lítinn fögnuð heimamanna á Króknum. Eftir misheppnaða vettvangsferð til Drangeyjar er Böddi rekinn úr starfi sínu við Fjölbrautarskólann. Hann heldur áfram uppteknum hætti sem hugsjónarmaður en Krókurinn er ekki nógu stór fyrir hann. Hann heldur því til Reykjavíkur á hestinum Nietzsche, með byssu í vasanum og háleitar hugsjónir fyrir lýðinn.

Þ.B.