Styrktarsýning fyrir Galtavita

 Eftirfarandi er fréttatilkynning frá aðstandendum Galtarvita

Kvikmyndin Heiðin eftir Einar Þór Gunnlaugsson verður sýnd föstudaginn 27. júní nk. kl. 20.00 í Bæjarbíó í Hafnarfirði til fjáröflunar fyrir starfsaðstöðu listamanna á
Galtarvita.
Sýningin er í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.

Aðstandendur Galtarvita hafa boðið listamönnum að dvelja á vitanum að sumri til
og þar hafa listamenn, erlendir sem innlendir, tækifæri til að dvelja og huga
að list sinni eða fræðistörfum. Fram til þessa hafa listamenn aðeins haft
athvarf í takmörkuðu rými íbúðarhúsnæðis, en þótt næði og einangrun sé
aðdráttarafl vitans mun bætt vinnuaðstaða gefa listamönnum meiri möguleika.
Vitamenn hafa í hyggju að gefa fornu húsnæði á staðnum hlutverk vinnustofunnar
og endubyggja gamalt fjós, um 30 fermetrar, og mun hún taka tillit til
mismunandi þarfa listamanna.
Með endurbættu fjósi eykst rými og aðstaða batnar
í húsnæði sem fyrir er.


Listamenn sem hafa dvalið á Galtarviti frá árinu 2001 eru m.a.:


Tónlist
: Hljómsveitin Múm: Örvar Þóreyjarson Smárason, Kristín Anna
Valtýrsdóttir, Gyða Valtýrsdóttir, Gunnar Örn Tynes, Samuli Kosminen, Ólöf
Arnalds og Eirikur Orri Ólafsson.
Myndlist & grafísk hönnun: Cristine Mullenberg (Sviss). Frá Klink og Bank listasmiðju: Guðmundur Oddur Magnússon, Daníel Björnsson, Ásthildur Magnúsdóttir, Unnur Auðars Jónasson, Sigrún Sigurðardóttir. Ritstörf og undirbúningur vegna kvikmyndagerðar: Þorsteinn Bachman,  4 Riders , þeir Agnar Kristján Þorsteinsson, Jóhann Ævar Grímsson,
Ottó Geir Borg, Ómar Örn Hauksson.

Kvikmyndin Heiðin er ný íslensk kvikmynd (2008) sem fékk lofsamlega dóma frá
nokkrum af okkar helstu gagnrýnendum og skríbentum. Umfjöllun um hana má finna
á: http://www.passportpictures.is.


Miðaverð er kr. 1000 plús, og rennur ágóði til byggingar vinnustofunnar.


Saga Galtarvita:

Galtarviti á Vestfjörðum er á milli Bolungarvíkur og Suðureyrar. Hann stendur í
Keflavík, ekki er hægt að keyra þangað. Eingöngu er hægt að fara á litlum bát
og tekur ferðin 20 til 30 mín. Einnig er hægt að ganga og tekur það um 2 4 tíma
eftir því hvaða leið er farin en hægt er að velja um þrjár leiðir.

Byggð hefur verið í Keflavík frá 1200 með hléum, en fyrstu skráðu heimildina um
byggð í Keflavík er að finna í kirkjubókum frá þeim tíma. Frá 1786 er hægt að
rekja nöfn ábúenda þar. Árið 1920 var reistur þar viti og vitavarðarhús, vitinn
var lýstur með gasi og var einn maður á staðnum til að sjá um hann. Vitinn var
kallaður Galtarviti.

Árið 1959  var nýr viti reistur á Galtarvita og var hann um 10,7 m hár eða allt
að 3 sinnum hærri en gamli vitinn, þá var einnig reist nýtt vitavarðahús. Orka
til vitalýsingarinnar fékkst frá ljósavélum, árið 1960 var svo reist lítill
vatnsaflsstöð sem sá vitanum og húsinu fyrir rafmagni. Árið 1994 var staða
vitavarðar á Galtarvita lögð niður og vitinn rafvæddur með sólarorku og
vindrafstöðvum. Árið 2001 komst Keflavík í einkaeigu en vitinn er starfræktur
áfram og sér Siglingastofnun Íslands um viðhald og starfsrækslu hans.

http://www.galtarviti.com