Doctor Strange leikarinn Benedict Cumberbatch staðfesti í samtali við Empire kvikmyndaritið í gær að persóna hans, Strange, verði hluti af næstu Avengers mynd; Avengers: Infinity War.
Þó að margir hafi væntanlega búist fastlega við því að sjá þessa „nýjustu“ ofurhetju úr ranni Marvel í Avengers myndinni næstu, þá er a.m.k. nú komin fram staðfesting, og óþarfi að velta vöngum um það meira.
Þurfi næstum að hafna hlutverkinu
Í samtalinu segir Cumberbatch einnig frá því hvernig hann hafi næstum því þurft að hafna hlutverki Doctor Strange vegna þess að hann hafði lofað að leika á sviði, í Shakespeare leikritinu Hamlet. Marvel kom til móts við leikarann og frestaði tökum á myndinni.
„Ég hélt í alvöru að ég þyrfti að kyssa hlutverkið bless,“ sagði leikarinn. „Ef maður getur ekki stokkið um borð þegar kallað er á mann, þá yfirleitt missir maður af tækifærinu. Þannig að mesta hrós sem ég fékk frá þeim, var að þeir komu til móts við mínar þarfir. Það hvatti mig líka áfram til að gera mitt allra besta fyrir þá.“
Avengers: Infinity War kemur í bíó 27. apríl árið 2018 og Doctor Strange kemur í bíó hér á Íslandi 28. október næstkomandi.