Stiller og Black eru öfundsjúkir

Tveir frábærir gamanleikarar, þeir Ben Stiller og Jack Black, munu deila með sér tíma á hvíta tjaldinu í gamanmyndinni Envy. Barry Levinson ( Wag the Dog ) mun leikstýra myndinni, sem fjallar um það hvernig öfundsýki og baktjaldamakk myndast á milli tveggja bestu vina þegar annar þeirra eignast skyndilega gríðarlegar fjárhæðir. Dreamworks kvikmyndaverið framleiðir myndina, og hefur hún verið sett í hraðgír. Stiller fær víst 10 milljónir dollara fyrir leik sinn í myndinni og einnig ágóðahlut í hagnaði myndarinnar. Tökur á myndinni hefjast um leið og hann klárar vinnu við myndina Duplex sem hann er að gera með Drew Barrymore.