Íslendingar muna betur en margir eftir Hostel myndunum sem Eli Roth gerði fyrir nokkrum árum. Ekki nóg með að Roth væri Íslandsvinur mikill og kæmi hingað reglulega í heimsóknir, þá réði hann Eyþór Guðjónsson kunningja sinn í stórt hlutverk í myndinni. Roth hélt einnig um taumana á öðrum hluta ævintýrisins, en Eyþór lifði þá fyrstu ekki af. Hinsvegar fóru tökur fram í Bláa Lóninu, sem var reyndar í myndinni komið fyrir úti í skógi einhverstaðar í Austur- Evrópu. Nú er komin stikla fyrir beint-á-DVD-myndina Hostel Part III. Roth er horfinn á braut frá seríunni og Íslandstengingin einnig.
Hinsvegar er bæði forvitnileg og fáránleg hugmyndin á bakvið þriðju myndina, og hún er einföld. Í stað þess að gerast í skuggalegu og óþekktu Austur-Evrópu landi, fer hryllingurinn fram á heimavelli í borg syndanna, Las Vegas. Leikstjóri er Scott Spiegel (From Dusk til Dawn 2: Texas Blood Money) og leikarana hef ég aldrei heyrt minnst á áður. Hvernig svona starfsemi ætti að þrífast í Bandaríkjunum er látið óútskýrt – en „The Hangover meets Saw“ hlýtur að bjóða upp á einhverja möguleika? Hér er stiklan: