Patrick Stewart og Ian McKellen snúa aftur sem Professor X og Magneto í X-Men: Days of Future Past. Þetta tilkynnti leikstjórinn Bryan Singer á Twitter-síðu sinni.
Þeir voru fjarri góðu gamni í síðustu mynd, X-Men: First Class, sem kom út í fyrra.
Í næstu mynd verður blandað saman nýjum og eldri persónum úr X-Men-seríunni.
Singer staðfesti einnig að James McAvoy (hinn ungi Xavier), Jennifer Lawrence (Mystique), Michael Fassbender (hinn ungi Magneto) og Nicholas Hoult (the Beast) hafi samþykkt að leika í myndinni.
Hún er byggð á þekktri sögu úr X-Men-myndasögunum þar sem fjallað er um tímaflakk og framtíðarveröld þar sem hinir stökkbreyttu eru langt í frá velkomnir.
Líklegt er að eftir eigi að tilkynna um þátttöku Hugh Jackman, enda hefur hann verið í öllum X-Men-myndunum til þessa.
X-Men: Days of Future Past kemur í bíó 2014.