Statham er meistari dulargervanna

Um daginn sýndum við plakat og fyrstu stikluna úr nýju Jason Statham myndinni, Parker, og nú er komin stuttmynd með sýnishornum úr myndinni og viðtali við Statham sjálfan um myndina, svokallað Featurette.

Parker, aðalpersónan, er greinilega meistari dulargervanna, ef eitthvað er að marka stikluna:

Eins og segir á vefsíðunni CinemaBlend.com þá er aðalpersóna myndarinnar ættuð úr sögum rithöfundarins Donald Westlake, og hefur komið við sögu í öðrum bíómyndum í gegnum tíðina, en aldrei undir þessu nafni. Í myndinni Point Blank hét persónan Walker, og var þá leikin af Lee Marvin. Árið 1999 var persónan í myndinni Payback með Mel Gibson og hét þá Porter. Nú er hinsvegar komið að mynd þar sem persónan er undir sínu rétta nafni, Parker.

Parker fjallar um titilpersónuna Parker, sem stelur peningum frá þeim sem eiga nóg af þeim og hann meiðir aldrei fólk sem ekki á það skilið. Eftir að hafa framið nokkur velheppnuð rán með nýjum samstarfsmönnum, þá er Parker svikinn og skilinn eftir á hraðbrautinni til að deyja.

Eftir að hann nær heilsu á ný þá uppgötvar hann að samstarfsfélagar hans hafa farið niður til Palm Beach í Flórída til að vinna nýtt verkefni þar. Parker gerir nú áætlun um að hefna sín og komast auk þess yfir alla peningana.

Jennifer Lopez leikur með Statham í myndinni ásamt þeim Michael Chiklis, Nick Nolte, Bobby Cannavale, Clifton Collins Jr. og Wendell Pierce.

Myndin er væntanleg í bíó 25. janúar nk. í Bandaríkjunum.