Justin Lin mun leikstýra næstu Star Trek mynd, Star Trek 3, að því er fram kemur í kvikmyndaritinu Empire. Í síðustu viku var sagt frá þeim sem líklegastir þóttu til að hreppa hnossið, þeim Justin Lin, Rupert Wyatt, Daniel Espinosa, Duncan Jones og Morten Tyldum, en Paramount hefur nú valið Fast & Furious leikstjórann Lin til verksins.
Upphaflega átti Roberto Orci að leikstýra myndinni, en hann hætti við fyrir tveimur vikum síðan, en mun samt vera áfram á meðal framleiðenda og sinna handritinu, sem hann skrifaði ásamt J.D. Payne og Patrick McKay.
Lin er sem stendur að vinna að tveimur þáttum úr annarri þáttaröð sjónvarpsseríunnar True Detective. Þegar því er lokið mun hann ganga um borð í Enterprise geimskipið, en myndin er síðan væntanleg í bíó árið 2016.