Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Eggers, eins og flestir, hefur þurft að fresta tökum á nýjustu kvikmynd sinni. Þar er um að ræða víkingar(hefndar)söguna The Northman, sem gerð er eftir handriti sem Eggers skrifaði í samvinnu við rithöfundinn Sigurjón Birgi Sigurðsson, betur þekktan sem Sjón. Myndin er sögð vera hrottaleg, umfangsmikil og gerist sagan á Íslandi við upphaf 10. aldar.
Tökur fara að stórum hluta fram á Írlandi og í Kanada, en Eggers notaðist mikið við síðarnefnda landið við tökur á fyrri verkum sínum, sem eru kvikmyndirnar The Witch og The Lighthouse. Báðar kvikmyndir leikstjórans hafa hlotið nær einróma lof gagnrýnenda og vakið athygli víða um heim.
The Northman skartar ýmsum þekktum andlitum og má búast við þeim Nicole Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe ásamt bræðrunum Bill og Alexander Skarsgård.
„Þetta er tímafrekt“
Fer ekki á milli mála að The Northman sé umtalsvert stærri kvikmynd heldur en Eggers hefur áður haft yfirsýn á, en er útlit fyrir að teymið á bakvið myndina hafi verið í meiriháttar bobba – og það var áður en allt stöðvaðist vegna COVID-19.
Aðstandendur voru rúmri viku frá fyrsta tökudeginum þegar kórónuveiran var farin að ná meiri útbreiðslu og allt í kjölfarið slegið á frest. Eggers sagði nýverið í spjalli við Film Independent að veiran hafi markað ákveðið lán í óláni.
Eftir því sem tökur nálguðust ákváðu þeir Eggers og framleiðendur kvikmyndarinnar að þörf voru á meiri undirbúningsvinnu, hafi umfang sögunnar reynst miklu stærra heldur en búist var við. Teymið hafi hreinlega ekki verið reiðubúið fyrir tökur á þessum tímapunkti.
Þó tímabundna stöðvun framleiðslunnar kosti óneitanlega sitt fyrir stórmynd sem er þegar dýrkeypt, telur Eggers allan þennan aukatíma vera af hinu góða. Eggers vinnur sjálfur hörðum höndum þessa dagana að því að endurskipuleggja undirbúningsvinnuna og vinna með teymi sínu heimanfrá. Sviðsmyndir og leikmunir eru enn í vinnslu og hefur mesti tíminn undanfarið verið varinn í sögutöflur (e. storyboards).
„Venjulega notast ég ekki við [storyboards] nema í senum með tæknibrellum, dýrum eða áhættuatriðum, atriðum sem krefjast þess að ýmsar deildir þurfa að vera samstíga með til að framkvæma þau,“ segir leikstjórinn og heldur áfram:
„Í þessari mynd er varla sena sem gerist ekki á bát eða krefst ekki fjölda aukaleikara. Við erum að teikna upp nánast alla myndina. Þetta er tímafrekt.“
The Northman segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.