Leikstjórinn Christopher Nolan og Matthew McConaughey skutu óvænt upp kollinum á ráðstefnunni Comic Con til að kynna mynd sína Interstellar.
McConaughey leikur verkfræðing sem er beðinn um að taka þátt í geimferð þar sem ætlunarverkið er að bjarga mannkyninu.
„Ég spjallaði við Christopher Nolan í þrjár klukkustundir og hann sagði ekki aukatekið orð um myndina. Ég hugsaði með mér: „Hvað var eiginlega í gangi?“. Hvað um það, honum líkaði vel við mig og viku síðar fékk ég handritið. Ég var ánægður með það og sagði: „Ég er með“,“ sagði McConaughey á ráðstefnunni.
Myndin fjallar um geimfara sem ferðast í gegnum ormagöng til að kanna nýjar víddir. Nolan sagði að mynd Stanley Kubrick, 2001: A Space Odyssey, hafi haft mikil áhrif á sig við gerð Interstellar. „Ég sá hana í bíó með pabba mínum. Núna höfum við tækifæri til að segja álíka metnaðarfulla sögu. Það langar mig að gera með þessari mynd.“
Hann sagði að myndin fjallaði í raun og veru um mannfólkið og hvaða þýðingu það hefur að vera manneskja.
Hér að neðan má sjá Nolan og McConaughey kynna myndina fyrir aðdáendum á ráðstefnunni.
Interstellar, sem var að hluta til tekin upp á Íslandi, kemur á hvíta tjaldið í nóvember.