Spider-Man 3 og 4 ákveðnar

Kvikmyndafyrirtækið Sony tilkynnti í dag að það hygðist framleiða tvær framhaldsmyndir til viðbótar af kvikmyndinni The Amazing Spider-Man, sem fjallar um ævintýri ofurhetjunnar köngulóarmannsins, úr samnefndri teiknimyndasögu.

the-amazing-spiderman

Framleiðsla á mynd númer tvö er þegar hafin, en hún verður frumsýnd 2. maí á næsta ári.

Þriðja myndin verður svo frumsýnd 10. júní árið 2016 og sú fjórða verður frumsýnd 4. maí, 2018.

Fyrsta myndin í þessari endurræsingu á Spider-Man seríunni þénaði meira en 750 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu á síðasta ári og átti stóran hlut í 4 milljarða dala tekjum Sony af bíómiðasölu árið 2012.

„Spider-Man er okkar mikilvægasta, best heppnaða og ástkærasta sería, þannig að við erum himinlifandi yfir að vera í aðstöðu til að fastsetja þessa frumsýningardaga fyrir þessar myndir til næstu fimm ára,“ sagði Jeff Blake hjá Sony Pictures í yfirlýsingu.

Leikstjóri fyrstu myndarinnar var Marc Webb en hann leikstýrir einnig mynd númer tvö. Óvíst er hver leikstýrir hinum myndunum, þeirri þriðju og fjórðu.

Andrew Garfield fer með hlutverk Spider-Man og Emma Stone leikur kærustu hans, Gwen Stacy.