Heimildarmyndin margverðlaunaða frá Friðrik Þór Friðrikssyni, Sólskinsdrengurinn, var frumsýnd í bíóhúsum um nýliðna helgi í Bandaríkjunum, en sló ekki beinlínis í gegn.
Myndin var sýnd í tveimur kvikmyndahúsum og varð hún í 119. sæti af 132 myndum sem voru í sýningu um helgina þar í landi og fékk aðeins 822 dollara í kassann, en það samsvarar um hundrað áhorfendum, miðað við meðalverð miða þar í landi. Þetta hljóta að vera nokkur vonbrigði fyrir aðstandendur myndarinnar, þar sem myndin hefur fengið gífurlegt lof þeirra sem hafa séð hana, auk þess sem Kate Winslet er þulur hennar á ensku og hefur sjálf stofnað styrktarsamtök til stuðnings einhverfum í tengslum við myndina.
Myndin fjallar um einhverfan dreng og móður hans, sem hefur gefið upp alla von um að hann nái nokkurn tíma tengingu við umheiminn en fer til Bandaríkjanna í von um að ný úrræði geti komið til bjargar.
Það er erfitt að benda á hver ástæðan fyrir dræmri aðsókn á myndina þar í landi er, þar sem við vitum ekki hvernig auglýsingum fyrir hana var háttað. Nafni myndarinnar var þó breytt fyrir Bandaríkjamarkað, úr „The Sunshine Boy“ yfir í mun óaðgengilegri titil: „A Mother’s Courage: Talking Back to Autism“, sem gæti hafa haft eitthvað að segja.
Þetta breytir þó ekki tvennu: 1. Myndin komst yfir höfuð í sýningar í amerískum bíóum, sem er mun meira en að segja það fyrir erlendar myndir og 2. Með þessum sýningum er myndin gjaldgeng til Óskarsverðlauna í flokknum „Besta heimildarmynd“, en það hefur verið yfirlýst takmark Friðriks og annarra aðstandenda að keppa að tilnefningu á þeim vettvangi. Vonandi helst sá draumur lifandi þrátt fyrir þessa dræmu aðsókn.
-Erlingur Grétar