Snyrtileg skipting hjá Ridley Scott

Framleiðsla á nýjustu kvikmynd leikstjórans Ridley Scott, All The Money In The World, hefur átt í miklu basli undanfarið eftir að einn af aðalleikurum myndarinnar, Kevin Spacey, var ásakaður um kynferðislega áreitni. Leikstjórinn tók á það ráð að skipta út leikaranum þrátt fyrir að myndin væri nánast tilbúin til sýninga.

Scott réð hinn margverðlaunaða leikara Christopher Plummer í staðinn og nú hefur ný stikla fyrir myndina litið dagsins ljós með Plummer í stað Spacey. Það þykir ótrúlegt hversu hratt var unnið að skiptingunni því aðeins er rétt tæpur mánuður síðan Plummer var ráðinn í hlutverkið.

Leikarinn fer með hlutverk auðkýfingsins J. Paul Getty í myndinni sem byggir í stuttu máli á sannri sögu um það þegar barnabarni hans var rænt árið 1973. Getty neitaði að mæta kröfum mannræningjans sem heimtaði lausnargjald fyrir barnið. Uppi varð fótur og fit vegna ákvörðunar hans því Getty var á þessum tíma einn ríkasti maður heims.

Með önnur veigamikil hlutverk fara m.a. Michelle Williams og Mark Wahlberg.

Hér að neðan má sjá nýjustu stikluna og virðist sem leikstjórinn hafi tekist að skipta út leikaranum á snyrtilegan hátt og telja margir að Plummer komi jafnvel betur út í hlutverkinu ef marka má stikluna.

Hér að neðan má svo sjá eldri stiklu með Kevin Spacey í hlutverki J. Paul Getty. Dæmi hver fyrir sig.