Snýr Sidney Prescott aftur í Scream 5?

Bandaríska leikkonan Neve Campbell er opin fyrir fimmtu kvikmyndinni í Scream-seríunni frægu, en leikstjórateymið á bak við spennutryllirinn Ready or Not hefur staðfest sína þátttöku. Hermt er að Sidney Prescott eigi að snúa aftur í heimbæ sinn í fimmta kaflanum eftir að kunnuglegt mynstur hrottalegra morða herjar á íbúa.

Scream-mynd­irnar nutu mik­illa vin­sælda og skiluðu þær yfir 100 millj­ón­um Banda­ríkja­dala í tekj­ur. Verður nýja myndin („5cream?“) einnig skrifuð af Kevin Williamson, sem skrifaði þrjár af fjórum myndum seríunnar. Auk Campbell hafa fastagestir myndanna verið Courteney Cox og David Arquette.

„Ég hef átt samtöl við þá [framleiðendur]. Það gengur auðvitað allt hægar vegna COVID og því er ómögulegt að vita hvenær myndin verður gerð. Vonandi gengur þetta allt saman upp,“ segir Campbell.

Frá þessu er meðal annars greint á bíóvefnum JoBlo en Campbell tók spjall við fjölmiðlamanninn Jake Hamilton og sagði þar hafa áður ekki getað hugsað sér að gera Scream 5 án leikstjórans Wes Craven.

Craven sat við stjórnvölinn á öllum fjórum myndum seríunnar, en sú síðasta kom út árið 2011. Leikstjórinn hafði áður daðrað við möguleika á nýrri framhaldsmynd en árið 2015 lést hann úr illkynja heilaæxli, 76 ára að aldri. Árið 2015 fór af stað samnefnd sjónvarpssería, sem framleidd var upphaflega undir nafni Craven og Weinstein-bræðra. Hingað til hafa verið gerðar þrjár þáttaraðir sem hafa fengið prýðisgóðar viðtökur.

Campbell segir hugmyndina að fimmtu Scream-myndinni sýna Craven og verkum hans mikla virðingu og sé í réttum anda. „Ég var efins um að gera aðra mynd án hans [Wes]. Hann var svo mikill snillingur og ástæðan fyrir því að myndirnar eru eins og þær eru,“ segir hún.

„Leikstjórarnir vilja heiðra það sem Wes skapaði og það skiptir mig miklu máli. Vonandi tekst okkur þetta.“