Will Smith er valdamesti leikari heims að mati bandaríska tímaritsins Newsweek. Smith bar meðal annars sigurorð af Tom Cruise og Tom Hanks sem hafa báðir komist á topp listans. Smith komst í efsta sætið vegna góðs gengis mynda hans í miðasölunni og vegna fjölhæfni hans sem leikara. Í næstu sætum á eftir Smith komu Johnny Depp, Ben Stiller og Brad Pitt. Smith hefur tvívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna, nú síðast fyrir frammistöðu sína í The Pursuit of Happyness.

