Þrjár nýjar kvikmyndir sem allar voru í mikilli dreifingu í Bandaríkjunum, hjálpuðu til við að gera helgina 62% aðsóknarmeiri en sömu helgi á síðasta ári. Þetta kemur fram á vef bandaríska blaðsins LA Times.
Þar fremst í flokki fór japanska skrímslið Godzilla, í Warner Bros. myndinni Godzilla: King of Monsters, en tekjur myndarinnar í fyrsta sæti aðsóknarlistans námu 49 milljónum bandaríkjadala. Sú niðurstaða var þó undir væntingum greinenda, sem gerðu ráð fyrir amk. 50 milljóna dala tekjum.
Á alþjóðavettvangi halaði myndin inn 130 milljónum dala til viðbótar.
Godzilla: King of Monsters er nýjasta myndin í skrímslaseríu Warner Bros og Legendary Pictures, en síðustu myndir í þeim flokki voru Kong: Skull Island frá árinu 2017, en tekjur hennar á frumsýningarhelgi námu 61 milljón dala, og svo Godzilla frá árinu 2014, en hún rakaði saman 93 milljónum dala á frumsýningarhelgi sinni.
Með aðalhlutverk í nýju Godzilla myndinni fara þau Vera Farmiga, Kyle Chandler og Millie Bobby Brown, en í myndinni á Godzilla í höggi við Mothra, Rodan og King Ghidorah.
Í öðru sætinu eftir sýningar helgarinnar er Disneymyndin Aladdin, með tekjur upp á 42,3 milljónir dala, á sinni annarri viku á lista. Samtals nema tekjur myndarinnar í Bandaríkjunum og alþjóðlega 445,9 milljónum dala.
Í þriðja sætinu í Bandaríkjunum er svo Rocketman, myndin um Elton John, sem gerist að stórum hluta í Bandaríkjunum einmitt, en tekjur hennar námu 25 milljónum dala.
Taron Egerton fer með hlutverk Elton John, en önnur helstu hlutverk leika þau Richard Madden, sem leikur ástmann Eltons og umboðsmann, og Bryce Dallas Howard, sem leikur móður hans.
Til samanburðar þá voru tekjur svipaðrar myndar, Bohemian Rhapsody, 51 milljón dala á frumsýningarhelginni í fyrra, en samtals námu tekjur myndarinnar 216,4 milljónum dala í Bandaríkjunum, en hún var síðar tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna og vann fern.