Skoraði 1.283 mörk – Pele mynd frumsýnd 2014

Brasilíski fótboltamaðurinn, Edson Arantes do Nascimento, betur þekktur sem Pele, skoraði 1.283 mörk á ferlinum og er eini leikmaðurinn sem hefur unnið heimsmeistarakeppnina í fótbolta þrisvar sinnum.

pele

Nú er saga hans á leið á hvíta tjaldið en myndin mun fjalla um það hvernig Pele óx úr grasi og þar til hann vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 1958 með brasilíska landsliðinu.

Myndin hér fyrir ofan er fyrsta ljósmyndin sem birtist úr myndinni, en þarna er væntanlega Pele ungur að æfa sig með boltann.

Markmið framleiðenda myndarinnar er að ná að frumsýna myndina rétt áður en heimsmeistaramótið í fótbolta hefst í Brasilíu á næsta ári. Keppnin byrjar 12. júní og stendur til 13. júlí.

Tökur myndarinnar hófust í Rio DeJaneiro 30. september sl. og þeim lýkur nú í nóvember.

Leikarar eru bæði brasilískir áhugamenn og atvinnuleikarar, og einnig alþjóðlegar kvikmyndastjörnur eins og Vincent D’Onofrio, sem leikur þjálfara Brassanna Vicente Feola.

Áhugaleikararnir Kevin de Paula, sem er brasilískur fótboltamaður, mun leika Pele á aldrinum 13-17 ára og Leonardo Lima Carvalho leikur hann þegar hann er 10 ára.

Pele varð atvinnumaður 15 ára gamall og var valinn í landsliðið 10 mánuðum síðar. 17 ára spilaði hann fyrir Brasilíu á HM í Svíþjóð, og leiddi lið sitt til sigurs, en Brasilía sigraði Svíþjóð 5-2 í úrslitaleik, þar sem Pele skoraði tvö mörk.