Bresku leikararnir Simon Pegg og Nick Frost eru vanir því að leika í skemmtilegum kvikmyndum saman, og nú hafa þeir bætt um betur og stofnað framleiðslufyrirtækið Stolen Picture. Fyrsta myndin sem nýja fyrirtækið þeirra gerir er grín-splatter-hrollvekjan Slaughterhouse Rulez, en fyrsta stiklan úr myndinni er nú komin út.
Kvikmyndin, sem inniheldur leikara eins og Michael Sheen, Asa Butterfield, Finn Cole og Hermione Corfield, gerist í heimavistarskólanum Slaughterhouse, en þangað koma börn fína og fræga fólksins, og búa sig undir að taka völdin í samfélaginu og ná almennum yfirburðum yfir samborgara sína.
En nú hafa ókunn öfl bankað á dyrnar, og ekkert verður aftur eins og áður, því risastór hola sem leiðir beint til helvítis hefur opnast á skólalóðinni!
Nú upphefst blóðug barátta nemenda og kennara fyrir lífi sínu.
Eins og sjá má í stiklunni þá svífur andi fyrri mynda þeirra Pegg og Frost yfir vötnum, en þeir eru frægir fyrir grín-hrollvekjurnar Shaun of the Dead, Hot Fuzz og World´s End.
Um leikstjórn og handrit sér Henry Fitzherbert.
Frumsýning er áætluð á hrekkjavökunni, þann 31. október nk. í Bretlandi.