Skítsama um gagnrýni – 0% líkar við Ridiculous 6

Gamanleikarinn Adam Sandler  kom í útvarpsþátt útvarpsmannsins kjaftagleiða Howard Stern, The Howard Stern Show , í gær þriðjudag, og grófu þeir þar með stríðsöxina, en þeir tveir hafa eldað grátt silfur um árabil.

sandler

Stern viðurkenndi í þættinum að hann hefði hagað sér eins og algjör fáviti gagnvart leikaranum í mörg ár og rifið í sig myndir hans, og gert lítið úr þeim. Sandler, sem sendi nýverið frá sér umdeilda gamanmynd á Netflix, The Ridiculous 6, sagði að honum væri skítsama um hvað gagnrýnendur segðu, en hinsvegar væri honum ekki sama um áhrifin sem slæm gagnrýni hefur á leikarana í myndum hans.

„Slæma gagnrýnin sem ég fæ fyrir allt sem ég geri, hún gerir mig reiðan að ákveðnu leiti, af því að ég hef beðið andsk. vini mína að leika í myndunum, og með því að biðja þá um það að leika í myndunum er ég að lofa þeim því að þær verði góðar,“ sagði Sandler við Stern.

Sandler, sem er 49 ára, hélt áfram og sagði: „Og svo sýni ég völdum hópi fólks myndirnar [fyrir frumsýningu] og allt gengur vel og ég hringi í vini mína í myndinni og segi þeim hvað virkaði vel í hópinn, og svo á föstudegi, hvern einasta föstudag, þá er næstum hver einasta mynd mín jörðuð,“ sagði Sandler og sagðist vonast til að félagar hans sæu myndina áður en þeir læsu gagnrýnina.

Þegar Stern spurði Sandler hvort að hann myndi vilja jákvæða gagnrýni, neitaði hann því. „Ég sver það, ég vil það ekki. Ég tek ekkert mark á slíku,“ sagði hann. „Þegar ég er sagður góður í einhverju og einhver hringir í mig og segir frá einhverju góðu sem hefur verið skrifað um mig, þá segi ég bara, mér er skítsama.“

Ridiculous 6 var sett á Netflix netvídeóveituna, sem framleiðir myndina einnig, þann 11. desember, og er þegar þetta er skrifað með 0% dóm á Rotten Tomatoes gagnrýnendasíðunni þekktu.