Í stuttu máli er „The Mummy“ hreint skelfileg mynd.
„The Mummy“ er fyrsta myndin í væntanlegum myndabálk sem sameinast undir heitinu „Dark Universe“ eða Myrki heimurinn og á að búa til sameiginlegan heim fyrir gömlu Universal skrímslin*. Grunnur er lagður að væntanlegum framhöldum og m.a. er Henry Jekyll (Russell Crowe) kynntur til sögunnar sem einhvers konar ofur vísindamaður sem sankar að sér hinum ýmsu óvættum sem finnast og rannsakar þá.
Það eina frumlega við „The Mummy“ er að kyninu á múmíunni er breytt og…búið. Það er langt síðan ég hef séð mynd sem mislukkast jafn stórkostlega og þessi og mjög líklega er þetta fyrsta myndin af mörgum ef mikill hagnaður næst. Án efa mun hún skila arði þar sem Tom Cruise fer fyrir þessum vitleysisgang en hann er stór ástæða fyrir því að myndin reynist vera svona stór skellur en vonandi tekst betur til næst. Múmían sjálf, sem í raun er frekar vel heppnaður óskapnaður, leikur hálfgert aukahlutverk þar sem ofurstjarnan Cruise þarf að vera í nánast hverjum ramma og Dr. Jekyll (sem tilheyrir ekki einu sinni Universal skrímslaheiminum) spilar alltof stórt hlutverk með langri kynningu og löngum einræðum og þá tapast þráðurinn með aðal óvættinum. Of miklu púðri er eytt í að sýna fram á þetta er líklega bara upphafið að nýjum myndabálki.
„The Mummy“ fær að láni mikið af efniviði sínum frá öðrum myndum (allt frá Indiana Jones til „American Werewolf in London“ til „Mission: Impossible“ til…ótrúlegt en satt…fjölmargra bandarískra og evrópskra uppvakningarmynda svo eitthvað sé nefnt) þar sem hún reynir að sjóða saman upplifun sem inniheldur hreina ævintýramennsku, léttan hroll í bland við aulahúmor og yfirmáta hasar þar sem London verður fyrir álíka skemmdum og þegar Ofurmennið barðist við Zod í Metropolis. Þessi samsuða gæti virkað ágætlega sem heilalaus skemmtun ef ekki væri fyrir mjög lélegt handrit og illa skrifuð samtöl, lítinn sem engan neista milli Cruise og Annabelle Wallis sem á að leika mjög gáfaðan fornleifafræðing en þjónar bara þeim tilgangi að þurfa að láta bjarga sér í sífellu og falla fyrir aðalstjörnunni, tilgerðarlegan vinskap milli Cruise og Jake Johnson sem byggist bara á kjánalegum tilsvörum svo dæmi séu tekin.
Tom Cruise er alla jafna mjög góður leikari og þessi æskubrunnur sem hann virðist hafa fundið gerir þennan síunga leikara (54 ára gamall!) meira en hæfan til að leika hasarhetju sannfærandi. Persónan hans í „The Mummy“ er samt eins og svo margar aðrar á seinni hluta ferils hans; prakkaralegur ofurhugi sem á yfirborðinu virðist vera mjög grunnhygginn en býr yfir hjarta úr gulli þegar á hólminn er komið. Bæði Dr. Jekyll og fornleifafræðingurinn Jenny Halsey (Wallis) minnast sérstaklega á hversu mikil hetja hann er og fórnfús en svo virðist sem þetta sé eitthvað samningsatriði hjá Cruise að hann þurfi að vera upphafið og endirinn á öllu sem hann kemur nálægt. Stundum virkar það en í mynd eins og þessari þar sem reynt er að endurvekja forna óværu og kynna til sögunnar heilan heim af sögulegum skrímslum þá þyrfti þessi ofurstjarna að sitja aðeins til baka og leyfa öðrum að njóta sín.
Ljósu punktarnir hér eru þó að minnsta kosti tveir. Múmían sjálf er virkilega vel heppnuð sköpun og ógnvekjandi og leikkonan Sofia Boutella kemur henni verulega vel til skila. Forsaga hennar fær töluvert pláss í myndinni og er áhugaverðari en það sem á sér stað í nútímanum. Fái þessi persóna að rísa upp á nýjan leik fær Boutella vonandi meiri tíma á skjánum og persóna hennar meira svigrúm til að láta ljós sitt skína. Hinn ljósi punkturinn er að myndin nær ekki tveimur tímum að lengd og verður það að teljast frekar óvenjulegt.
Ég get ekki með góðri samvisku mælt með „The Mummy“ en áhugamenn um væntanlega myndabálkinn hljóta að vilja sjá hvernig þetta hefst allt saman.
*Gömlu Universal skrímslin eru m.a. Múmían, Frankenstein, Dracula, The Wolfman og The Creature From the Black Lagoon.