Árangur Ljósvíkings, nýjustu kvikmyndar Snævars Sölva Sölvasonar, var glæsilegur um helgina en myndin rauk upp í efsta sæti bíóaðsóknarlistans á sinni þriðju viku í sýningum.
Myndinni tókst að velta Beetlejuice Beetlejuice úr toppsætinu og sló einnig út Transformers One, sem frumsýnd var um helgina og lenti í þriðja sæti.
Þrjár aðrar myndir, Bad Genius, The Gullspång Miracle og About Dry Grasses, voru einnig frumsýndar á dögunum og má finna þær í tíunda, fimmtánda og sautjánda sæti.
7.149 gestir
Þegar á heildina er litið voru 2.545 gestir sem sáu Ljósvíkinga í vikunni, en alls hafa 7.149 séð hana eftir þriðju helgi. Myndin gerist á Ísafirði og segir frá því þegar tveir aldagamlir vinir fá óvænt tækifæri til að hafa fiskveitingastaðinn sinn opinn árið um kring. Kemur þá annar þeirra út úr skápnum sem trans kona.
Tæplega tíu þúsund Íslendingar hafa nú skellt sér á Beetlejuice Beetlejuice, sem heldur sigurgöngu sinni áfram vestanhafs og er á toppnum þar þriðju vikuna í röð.
473 sáu Ljósbrot í vikunni en alls nemur heildarfjöldi gesta 5.688 eftir fjórðu helgi .Snertingu sáu 414 í vikunni. Alls hefur myndin fengið 44.107 gesti eftir 17. sýningarhelgi.