Skarsgård í amerísku Karlar sem hata konur

Hér á kvikmyndir.is höfum við verið að fylgjast með leikaravali í bandarísku endurgerð myndanna sem gera á eftir bókum Stieg Larsson, eða Millennium þríleiknum eins og hann er kallaður.

Stellan Skarsgård kemur nú til greina í myndina samkvæmt samtali sem Variety kvikmyndatímaritið átti við hann á dögunum. Skarsgård er ekki vanur að halda því lengi leyndu þegar verið er að ráða hann í hlutverk, og því má taka orð hans nokkuð trúarlega. Til dæmis sagði hann frá því strax í október í fyrra að hann myndi leika í Thor, en hann sagði það löngu áður en opinber tilkynning var gefin út.

„Ég er búinn að hitta Fincher [David Fincher leikstjóra], mig langar að vinna með honum, hann vill vinna með mér. Ég er með tilbúið tilboð á borðinu og við erum í samningaviðræðum,“ sagði leikarinn.

Hlutverkið sem Skarsgård myndi fá er hlutverk Martin Vanger, sem er grunaður um að hafa átt þátt í hvarfi táningsstúlku fyrir 40 árum síðan.

„Samningurinn er fyrir tímabilið september og fram í mars, en ég veit ekki enn hvenær ég þyrfti að mæta á tökustað,“ bætti hann við. „Það á að taka megnið af myndinni upp í Stokkhólmi, en eitthvað verður gert í Bandaríkjunum. Ég held að við myndum flytja okkur þangað og inn í stúdíó þegar það verður of dimmt í Svíþjóð.“

Þegar hefur verið tilkynnt að Daniel Craig muni leika aðalhlutverkið, rannsóknarblaðamanninn Mikael Bomkvist, en enn er óráðið í hlutverk hakkarans með gothara útlitið Lisbeth Salander. Einhver af þessum gæti fengið hlutverkið eins og við sögðum frá á dögunum.