Stórrisarnir hjá Disney hafa hlaðið upp fyrstu tíu mínútunum úr heimildarmyndinni The Skywalker Legacy, sem tilheyrir aukaefni Blu-Ray útgáfu The Rise of Skywalker. Þarna er farið ítarlega á bak við tjöld níundu og nýjustu myndarinnar í myndabálknum og einnig fjallað um gerð gamla þríleiksins, með áður óséðu myndefni frá tökum hans.
Heimildarmyndin er rúmlega tveir klukkutímar í heildina og ýmsar fróðlegar upplýsingar er að finna á þessum tíu mínútum.
Aðdáendur Stjörnustríðs og með því eru hvattir til að gæða sér á þessu innliti í arfleið heildarseríunnar og ferli stórmyndar sem gífurleg pressa hvíldi á bak við.
Eins og eflaust mörgum Star Wars-aðdáendum er kunnugt um voru viðtökurnar við níundu og nýjustu mynd svonefndu Skywalker-sögu, The Rise of Skywalker, vægast sagt blendnar. Ef marka má gagnrýnendavefinn Rotten Tomatoes hefur engin leikin Star Wars kvikmynd hlotið slakari dóma og hafa margir hverjir verið duglegir að deila um gæði myndarinnar.