Á fimmtudaginn síðasta voru 20 ár liðin síðan hinn þá ungi og efnilegi kvikmyndaleikari River Phoenix, bróðir Joaquin og Rain, lést.
Í nýrri ævisögu sinni, Running With Monsters, eftir Celebrity Rehab stjörnuna Bob Forrest, þar sem hann fjallar um eigin eiturlyfjafíkn og tónlistarferil í Hollywood, minnist hann á kvöldið sem Phoenix lést. Þar segir hann að Phoenix hafi fundið á sér að hann væri að fá einkenni ofneyslu eiturlyfja nokkrum andartökum áður en hann dó.
Forrest segist hafa verið á næturklúbbi Johnny Depp, The Viper Room þegar þetta gerðist. „Einhver tók fram kókaínið og lét það ganga. River var út úr heiminum greinilega og var reikull í spori eins og hnefaleikamaður sem er búinn að fá of mörg höfuðhögg í 15 lotu bardaga.“
Hann segist hafa hitt hann síðar um kvöldið og þá hafi Phoenix viðurkennt að hann gæti hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum.
„Bob, mér líður ekki vel,“ segir Forrest að Phoenix hafi sagt. „Ég held að ég hafi tekið of stóran skammt.“
Ekki löngu síðar hneig Phoenix niður á gangstéttinni fyrir utan klúbbinn og lést skömmu síðar.