Það leit út fyrir að Sin City hafi fallið afskaplega vel í kramið hjá bíófíklum allstaðar enda rosaleg ræma þar á ferð. Það var lítill vafi um það frá upphafi að Frank Miller og Robert Rodriguez myndu varpa fram annari mynd, en eins og aðdáendur bókanna vita þá eru til fullt af öðrum sögum úr Sin City seríunni.
Nú er búið að uppljóstra söguþráð framhaldsmyndarinnar (ef svo má kalla hana), Sin City 2 (enn hefur ekkert betra nafn verið gefið til kynna). Meðan áður var dregið fram um að bókin A DAME TO KILL FOR yrði notuð (sem gerist á undan þeim viðburðum sem Dwight upplifði í kvikmyndinni), þá voru enn ýmsar viðræður um hvað annað væri hægt að nota til að fylla upp í rest.
Miller var nýlega búinn að staðfesta það að hann er byrjaður að vinna á glænýjum bókum úr þessum heimi sínum, og er það klárt að eitthvað af því verður notað sem aukaþráður fyrir Sin City 2.
Þessi “nýja“ saga – sem mun allra líklegast verða notuð – mun rekja persónuna Nancy og þann eið sem hún sver gagnvart sjálfri sér að hefna dauða Hartigan’s og ætlar hún sér þá persónulega að drepa þá sem eftir standa í Roark-keðjunni. Já, þetta er sumsé beint framhald af That Yellow Bastard-sögunni, og fær þetta líklegast alla aðdáendur bókanna til að slefa duglega.
Miller sagði einnig að hann hefði áhuga að gera smá forsögu tengdri Hartigan.
Vitað er að Clive Owen muni snúa aftur ásamt James King, Mickey Rourke, Devon Aoki, Brittany Murphy og Rosario Dawson. Quentin Tarantino mun líklegast ekki bregða við aftur með aðstoð sína, en Rodriguez segist hvort eð er vilja prufa að fá nýjan “gestaleikstjóra.“ Myndin kemur út á næsta ári, og verður eflaust algjört dínamít að sjá þetta.

