Sigourney Weaver í nýju hlutverki í Avatar

Þó svo að persóna leikkonunnar Sigourney Weaver, Dr. Grace Augustine, hafi dáið í stórmyndinni Avatar, sem var frumsýnd árið 2009, þá hefur James Cameron upplýst að leikkonan muni snúa aftur til leiks í framhaldsmyndunum, en að þessu sinni mun hún leika allt annað hlutverk.

sigourney

„Sigourney og ég höfum lengi unnið saman, allt frá því við gerðum Aliens árið 1985.“ sagði leikstjóri myndarinnar, James Cameron, í yfirlýsingu fyrir stuttu. „Við erum góðir vinir og við höfum alltaf unnið vel saman, því finnst mér það eina rétta í stöðunni að fá hana til baka. Persónan hennar lést í fyrstu myndinni, þannig að þessu sinni mun hún leika nýtt og meira krefjandi hlutverk,“ sagði Cameron að lokum.

Framhaldsmyndirnar þrjár verða teknar upp samtímis, og er von á fyrstu myndinni í desember árið 2016. Önnur myndin kemur á sama tíma árið eftir og sú þriðja sömuleiðis í desember 2018.