M. Night Shyamalan er sennilega besta dæmið sem finnst í kvikmyndabransanum um menn sem byrja á toppnum. The Sixth Sense, fyrsta kvikmynd hans sem vakti verulega athygli*, kom út árið 1999 og fékk frábæra dóma og einar 6 Óskarstilnefningar. Gæði mynda hans hafa svo þótt sífellt dala, og nýjustu myndirnar, The Happening (2008) og The Last Airbender (2010) þóttu hreint út sagt hræðilegar. Hér er línurit sem tekur saman Rotten Tomatoes prósentur mynda hans:
Eins og sjá má segir tölfræðin okkur að næsta mynd hans hljóti að verða sú fyrsta í sögunni sem fer niðurfyrir núllið á prósentuskalanum. Shyamalan (og líklega framleiðendur hans hjá Sony) hafa greinilega tekið þessa spá alvarlega. Myndin One Thousand A. E. er næst á dagskrá hjá kappa, og er áætlað að feðgarnir Will og Jaden Smith muni fara með aðalhlutverk myndarinnar. Á hún að fjalla um feðga sem snúa aftur til jarðar eftir að mannkynið hefur yfirgefið hana.
Shyamalan hefur hingað til skrifað allar sínar myndir sjálfur, meira að segja The Last Airbender, sem var þó fyrsta mynd hans sem byggði á áður útgefnu efni. Þessi nýja mynd byrjaði þó sem handrit eftir Gary Whitta (Book of Eli), sem Shyamalan endurskrifaði síðan. Nú berast þær fréttir að þörf hafi verið á frekari lagfæringum á handritinu, og til þeirra hafi verið fenginn Stephen Gaghan, sem skrifaði Traffic og Syriana. Handrit Shyamalan hafa í auknum mæli verið talin veiki punkturinn í verkum hans, og því á margur kvikmyndanördinn á eftir að andvarpa „loksins“ við þessar fregnir. Vonandi gengur þessi mynd betur en tölfræðispáin segir fyrir vikið. Tökur eiga að hefjast í febrúar, og stefnt er á að koma myndinni út sumarið 2013.
*Í upphaflegri útgáfu greinarinnar sagði ég að The Sixth Sense hefði verið fyrsta mynd Shyamalans, en rétt er eins og Ingvar Valgeirsson benti mér á, að hann átti að baki tvær myndir, Praying With Anger frá ´92 og Wide Awake frá ´98. En þetta breytir nú vonandi ekki stóra samhenginu – þó að línuritið mitt myndi sennilega eyðileggjast aðeins ef þessar tvær væru teknar inn á það.