Sexið söluhæst á DVD og Blu-ray í USA

Glamúrmyndin Sex and the City 2, sem fjallar um Carrie og vinkonur hennar sem búa í New York borg í Bandaríkjunum, fór á topp listans yfir mest seldu myndir á DVD í Bandaríkjunum í síðustu viku, en þetta er fyrsta vika myndarinnar á þeim lista.

Framhaldsmyndin, sem gerði það ágætt í bíómiðasölunni í Bandaríkjunum og þénaði 95 milljónir Bandaríkjadala, sló þar með út topp-DVD mynd vikunnar á undan, sem var How To Train you Dragon, en sú mynd fór niður í annað sæti listans, samkvæmt Nielsen VideoScan sölulistanum.
Þrátt fyrir að aðeins 18% sölunnar komi frá söluá Blu-ray diskum, þá nægði það til að myndin væri einnig mest seldi Blu-ray diskurinn þessa sömu viku, sem lauk þann 31. október. Næst á Blu-ray listanum var 25 ára afmælisútgáfa af Back to the Future myndunum, sem við sögðum frá hér á dögunum, en árangur hennar á Blu-ray er mjög góður þar sem um þriggja diska útgáfu er að ræða sem kostar 80 dollara, eða næstum 9.000 kr. íslenskar.
Back to the Future pakkinn lenti svo í 5. sæti á sameinuðum DVD og Blu-Ray sölulista, næst á eftir Predators og The Girl Who Played With Fire.