Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

Sex and the City 2 2010

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 2. júní 2010

Carrie on

146 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 15% Critics
The Movies database einkunn 27
/100

Lífið leikur við Carrie og vinkonur hennar. Hún er í hamingjusömu sambandi við Mr. Big sem virðist loks hafa komist á stöðugan kjöl og vinkonurnar virðast allar vera að fá það sem þær vilja í lífinu. Hins vegar er aldrei langt í uppreisnina hjá þeim, þar sem þær draga stöðugt í efa þær hefðbundnu væntingar sem eru gerðar til þeirra á öllum sviðum,... Lesa meira

Lífið leikur við Carrie og vinkonur hennar. Hún er í hamingjusömu sambandi við Mr. Big sem virðist loks hafa komist á stöðugan kjöl og vinkonurnar virðast allar vera að fá það sem þær vilja í lífinu. Hins vegar er aldrei langt í uppreisnina hjá þeim, þar sem þær draga stöðugt í efa þær hefðbundnu væntingar sem eru gerðar til þeirra á öllum sviðum, sem eiginkonur, mæður og fleira. Þó Carrie sé hamingjusöm með Mr. Big virðist hún hafa sífellt auknar áhyggjur af því að hamingjan muni ekki endast. Til að breyta aðeins til ákveða þær að skella sér í heilmikla ævintýrareisu. Þær yfirgefa öryggið í New York og fara til sólríkrar paradísar í Mið-Austurlöndum þar sem partýið stendur yfir allan sólarhringinn og eitthvað framandi og heillandi leynist við hvert götuhorn. En kannski hefur þessi ferð önnur og alvarlegri áhrif á líf þeirra en þær ætluðu sér...... minna

Aðalleikarar

bara enginn söguþráður!
Ég hef ekki séð fyrstu myndina(þótt að mér hafi verið sagt mörgum sinnum að ég VERÐI að sjá hana) en vinkonur mínar buðu mér í bíó á hana svo ég sagði bara ok. Myndin byrjaði alveg ágætlega, yfirdrifið og hlægilegt hommabrúðkaup sem lét mann brosa. Það er líka sætt atriði hjá Carrie og Big í byrjun myndarinnar.

En eftir það atriði gerðist ekkert, þangað til stuttu fyrir hlé, þá bauð Samantha stelpunum til miðausturlanda(sem er víst söguþráðurinn) og það í lúxus flugvél og hóteli.
þær eru rétt komnar í flugvélina þegar það kemur hlé.
Ég furðaði mig á þessu og bara vonaði að söguþráðurinn væri góður, en þær vonir voru til einskis... Alveg hræðilega leiðinlegur söguþráður einkennir þessa of löngu mynd, tveir og hálfur tími af engu.

**spoiler byrjar**
þegar til miðausturlanda er komið og svolítið búið af ferðalaginu fara Miranda og Carrie í búðarráp og þar hittir Carrie fyrrverandi elskuhuga sinn(ég horfði ekki á satc-þættina svo ég bara man ekki hvað hann hét ;p). Þau fara á deit um kvöldið og kyssast ''óvart''. Carrie fríkar út og fer að háskæla. Hún ákveður að segja Big það og er viss um að hann sé að fara frá henni (út af kossi???? KOMMON!) Samantha heldur myndinni uppi með hneikslun hennar yfir hneikslun austurlendinga á kynferði hennar sem reyndar stytti ferð þeirra vinkvenna um 5 daga!
þegar Carrie fer heim finnur hún Big og hún lofar honum að hún muni aldrei kyssa annann mann aftur í extra korný atriði.
**spoiler endar**

Eftir að hafa séð myndina byrjaði ég að hugsa: afhverju þessi söguþráður? Eftir brúðkaupið gerist margt eins og barneignir. Carrie hefði getað orðið ólétt! Það er bara dæmi um óteljandi sögur eftir brúðkaupið sem hefði getað verið í myndinni.

Það eru alveg flott föt í henni en föt eru ekki í mínum kvikmyndasmekk heldur er söguþráðurinn það sem mér finnst mikilvægastur en hann floppaði illilega hér þess vegna finnst mér þetta hræðileg mynd. Ef við tökum aðra svipaða söguþráðsfloppaða mynd eins og year one sem mér finnst svipa til sex and the city 2 í sambandi með söguþráðsklúðrun. Góðir leikarar(Jack Black og Michael Cera),góðir brandarar en alveg ömurleg saga. SATC2 er fín fyrir þá sem finnst söguþráður ekki skipta máli og elska flott föt í myndum. Fyir þá sem hugsa eins og ég um kvikmyndir er þetta bara rusl.


over and out!


2/10

ps. þetta er fyrsta gagnrýnin mín Jej!!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Fjórir tímar sem ég fæ aldrei aftur
Það sést strax á nafni mínu að ég tilheyri ekki lykilmarkhóp þessarar myndar. Ég hef horft á fáeina þætti og hef fundist þeir hoppa á milli þess að vera þrælgóðir og hundleiðinlegir. Fyrri Sex and the City-bíómyndin var enginn viðbjóður en hún var lítið annað en langt samansafn af klisjum, formúlum og litlum söguþráðum sem voru sífellt að endurnýja sig að óþörfu. Ég held einnig að ég hafi sjaldan séð mynd taka eins langan tíma að enda, og ég hélt að það væri viljandi gert til þess að hnýta alla hnúta og ljúka sögu þessara persóna í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar jafnast fátt á við þrjóskuna í Hollywood að gera meira af því sem selur. Annars efa ég að konurnar hafi kvartað yfir þeirri ákvörðun að gera glænýja bíómynd, enda er almennt eitthvað við Sex and the City sem konur virðast elska sem við karlmenn munum aldrei nokkurn tímann skilja. Svona svipað og Rauðu seríurnar.

Þegar ég hugsa um mynd nr. 2 þá berst ég fyrir því að reyna að sjá hvað það er sem gerir hana að svona miklu kvennagulli. Ætli það sé húmorinn? Ég persónulega fann ekki fyrir neinu öðru en þvinguðu sitcom-gríni og einhæfum greddutilvísunum (takk, Samantha). Ætli það séu fötin? Ekki mitt að dæma reyndar. En hvað með samtölin? Ég myndi skilja að það hafi upphaflega verið aðdragandinn þegar þættirnir byrjuðu því þá voru samtölin snjöll og oft vel skrifuð. Núna fer þetta allt bara í hringi. Sama verð ég að segja um dramað. Það er ekkert grípandi við það. Svo er það líka orðið svo áberandi hvað þetta fyrirbæri er að verða uppiskroppa með efni, því miðað við fyrstu myndina eru vandamálin í þessari mynd algjör skítur á priki. Í fyrri myndinni höfðum við t.d. aðskilnað af sökum framhjáhalds og feilað brúðkaup vegna þess að brúðguminn þorði ekki að mæta. Í þessari mynd er hringsólað í kringum agnarsmá vandamál í tvo klukkutíma og allt er leyst á innan við mínútu í lokin.

Þrátt fyrir að vera lítt hrifinn af fyrri myndinni þá get ég a.m.k. skilið af hverju hún var svona löng. Ég gæti ALDREI sagt það sama um þessa mynd. Í fyrsta lagi rista vandamálin ekki nógu djúpt til að verðskulda 145 mínútna lengd á bíómynd og í öðru lagi er alltof, alltof mikið af gagnslausum uppfyllingum sem gera ekkert nema að hamra ofan í mann hversu þunn þessi mynd er og hvað það hefur verið gaman fyrir leikkonurnar að taka hana upp. Besta dæmið væri karaókí-senan, sem var tilgangslaus út á alla kanta, en af einhverjum ástæðum ákvað leikstjórinn að leyfa henni að njóta sín í botn eins og hún væri gríðarlega mikilvæg. Það hefði verið léttilega hægt að þjappa heildarlengd þessarar myndar niður í svona cirka 90-100 mínútur, sérstaklega seinni hlutann. Það er mér óskiljanlegt hversu mikill hluti af þessari mynd gerist í miðausturlöndunum, þegar allt sem gerðist þar hefði hiklaust getað verið sýnt á korteri. Eina sem þær gera er að tala stöðugt um sömu vandamál aftur og aftur eða njóta sín með því að fara í sólbað, verslunarleiðangur eða út á lífið. Oftar en ekki leið mér eins og ég væri að horfa á heimildarmynd sem sýndi leikkonurnar í sólarlandafríi. Það eða tískusýningu.

Myndin er líka stöðugt að stríða manni með þessum litlu sub-plottum sem hún þykist vera að byggja upp. Söguþráðurinn með barnfóstruna (*slef) byrjaði ágætlega en svo varð EKKERT úr því, og það er hreint út sagt hlægilegt hvernig handritið ákvað skyndilega að vefja upp á því plotti eins og það hefði aldrei skipt neinu. Síðan fáum við senu með Penélope Cruz og hinum ávallt sjarmerandi Chris Noth. Þessi sena virðist stafa það út: "Við erum að byggja upp eitthvað sniðugt aukaplott," sem hefði verið mjög skemmtilegt þar sem Carrie/Big hjúskaparplottið var alltof grunnt til að verðskulda athyglina sem það fékk í heilli bíómynd. 20 mínútna þætti kannski. En hvað gerist svo? Penélope gjörsamlega hverfur og kemur aldrei aftur inn í myndina, sem gerir atriðið TIL-GANGS-LAUST!! Trúið mér, það er hellingur af svona atriðum í myndinni sem virðast stefna eitthvert en gera það svo ekki.

Ég býst við að stærsta ástæðan fyrir því að margar konur horfa ennþá á Sex and the City tengist persónunum. Ég get skilið þá ástæðu ef hún tengist fyrri þáttunum, en ekki bíómyndunum. Eina persónan sem mér líkar vel við áfram er Miranda (Cynthia Nixon). Ég er orðinn svo hrikalega þreyttur á Samönthu (Kim Catrall) og er hálfpartinn farinn að hafa áhyggjur af geð- og líkamlegri heilsu hennar - konan þarf í alvörunni að finna sér nýtt áhugamál, og að sjá hana reyna að yngja sig sífellt upp er bara orðið sorglegt. Charlotte (Kristin Davis) er krúttlegust af stelpunum að mínu mati, en hennar sögu er gjörsamlega lokið. Það er ekkert sem þessi mynd getur gert til að byggja upp á persónusköpun hennar. Svo kem ég loks að Carrie (Seabiscuit), sem hefur aldrei verið meira óþolandi heldur en í þessari mynd. Hún er barnaleg, þröngsýn og bara vanþakklát í orðsins fyllstu merkingu. Við fáum hér senu þar sem hún skiptist á gjöfum við eiginmanninn, hann gefur henni heilt SJÓNVARP og hún einungis grettir sig og spyr af hverju hann gaf henni ekki skartgripi í staðinn. Svo hristi ég jafnframt hausinn yfir atriði sem kemur fyrir seinna í myndinni (Spoiler???), þar sem hún er nýbúin að gera "slæman hlut" með sínum fyrrverandi. Henni líður illa yfir því, segir manninum sínum frá því og einhverra hluta vegna leiðir það til þess að hann ákveður að verðlauna henni með demantshring (ÁN... DJÓKS!). Ég dýrka skilaboðin sem þetta sendir til þeirra ungu stelpna sem horfa á þetta: Það er allt í lagi að kyssa annan gaur því þér verður verðlaunað seinna, sem þýðir að þú þarft varla að einblína á það hvort þú hafir lært eitthvað eða ekki.

Sex and the City heimurinn er augljóslega ekki fyrir mig. Mér líður bara hreinlega illa við það að umgangast svona mikinn materíalisma þar sem það versta sem gæti gerst fyrir aðalpersónurnar væri það að ferðast í almennu farrými í flugvél. Ég skil vel að konur hafi gaman af því að horfa á fatnaðinn og fallegu karlmennina (meira að segja *ég* get ekki neitað því hversu sjarmerandi Chris Noth er, þrátt fyrir perralega tóninn í röddu hans). Eins og ég segi, það er okkur karlmönnum dulrænt hvað það er við þetta fyrirbæri sem heillar kvenkynið upp úr rándýru Gucci-skónum. Ég get alls ekki sagt að Sex and the City 2 sé góð eða jafnvel þolanleg vídeóafþreying. En hörmuleg er hún ekki heldur. Alveg sama hversu pirrandi lykilpersónurnar geta verið þá ná leikkonurnar rosalega vel saman og sú kemistría skín alltaf í gegn. Partur af mér langar auðvitað til að kýla þessa mynd í gólfið og gefa henni botneinkunn en ég get ómögulega hatað hana nógu mikið. Hún fer meira í taugarnar á mér og ég neita að sitja yfir henni aftur. Skal miklu frekar horfa aftur á New Moon.

3/10

PS. Kvenkyns lesendum er velkomið að senda mér reiðan tölvupóst á tommi@kvikmyndir.is.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sykursæt og kómískt framhald
Sex and the city 2 var frumsýnd í gær og biðu aðdáendur spenntir fyrir utan bíósalinn en vissu ekkert hvað biði þeirra. Auglýsingin hafði sagt að myndin myndi gerast í Abu Dhabi og New York og að það yrði drama hjá vinkonunum fjórum Carrie, Samönthu, Charlotte og Miröndu. Það sem þeir vissu ekki vegna misjafnra dóma um myndina var að hér biði þeirra skemmtilegt ævintýri, þar sem myndin einbeitir sér mikið af húmor og kemur áhorfendum og líklega aðdáendum þáttanna í gott skap.

Söguþráður kvikmyndarinnar er ef til vill ekkert allt of djúpstæður, Carrie er að venjast því að vera gift og telur ástarlíf þeirra hjóna vera allt of venjulega. Miranda er komin með leið á vinnu sinni, Charlotte á erfitt með að vera móðir og að treysta fóstrunni og Samantha er að reyna að enduruppgötva kynhvöt sína á breytingarskeiðinu.
Í einum af þeirra frægu samtölum um líf sín segir Samantha stelpunum að þeim hafi boðist ókeypis kynningarferð til Abu Dhabi og ákveða þær að fara. Þar sér maður skemmtilegu eyðimörkina og nýju ,,Mið-Austurlöndin" og gerist margt skemmtilegt og dramatískt. Þessi ferð breytir líf kvennana og er mjög áhugaverð.

Myndin er betur heppnuð að mínu mati en sú fyrri þar sem hér var lagt í ferð sem var mjög ólík þáttunum. Það að sýna ekki gömlu New York heldur Abu Dhabi blæs fersku lofti á söguþráðinn. Þar er gert grín af venjum araba og siðum en einnig borin virðing fyrir þeim með því að sýna ýmsar hliðar á menningunni. Einnig er raunveruleikinn ekki alveg flúinn þar sem Big maður Carrie er í viðskiptum og er talað um að þau hafi minnkaði við sig húsnæði og að gengið sé að falla. Myndin spilar sig samt skemmtilega út úr kreppunni með því að Samantha segir að hún hafi engan áhuga á að ræða meira kreppuna og vilji njóta ríkidómsins í Abu Dhabi þeim að kostnaðarlausu.

Myndin heppnast vel en auðvitað eru einhverjir gallar í henni. Hún er heldur löng og get ég ímyndað mér að sumum fari að leiðast það. Myndin einbeitir sér allt of mikið af útlitinu ég las einhver staðar að það hefði verið eitt um milljarð króna í búningana sem ég get vel trúað miðað við fjölda þeirra og útlit. Einnig má gagnrýna það hvað Charlotte fær leiðinlegan söguþráð og er myndin mjög mikið um Carrie og svo vinkonurnar en ekki þær allar.

En að lokum sem Sex and the City aðdáandi fell ég fyrir húmornum, gömlu vinkonunum og hinni framandi paradís Abu Dhabi. Þessa mynd verða sannir aðdáendur þáttana að sjá og munu hafa gaman af. Strákar sem eru dregnir af vinkonum sínum í bíó ættu líka ekki að kvíða þess þetta er létt skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

04.05.2013

Meira Sex and the City yrði frábært

Um tíu ár eru liðin síðan bandarísku sjónvarpsþættirnir vinsælu Sex and the City hættu göngu sinni, og þrjú ár síðan önnur Sex and the City kvikmyndin var frumsýnd, við misjafnar viðtökur gagnrýnenda. Það þ...

16.10.2012

Bless Ricky Gervais

Þegar Ricky Gervais var kynnir á Golden Globe verðlaunahátíðinni árið 2010 sagði hann: "Þetta er allt í lagi, ég mun ekki gera þetta aftur," nokkrum sinnum, sem reyndist ekki alveg rétt, því hann átti eftir að mæta tvisvar ...

22.02.2011

TÍAN: Bíóárið 2010!

Betra seint en of seint. Mér hefur alltaf fundist þægilegra að gera topplista yfir bestu myndir ársins sem var að líða í kringum febrúar-mars í staðinn fyrir áramótin eins og flestir gera. Það fylgir því bara að búa ...

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn