Steven Seagal hefur gagnrýnt Írann Liam Neeson og segir hann ekki vera alvöru hasarmyndaleikara.
Seagal, sem er frægur fyrir slagsmálahæfileika sína, telur að það þurfi ekki lengur alvöru „stríðsmenn“ í nútíma hasarmyndir vegna þess að tæknibrellurnar eru orðnar svo háþróaðar.
„Það er hægt að búa til kvikmyndir á ýmsa vegu nú til dags. Menn nota mikið af tæknibrellum. Fólk þarf ekki að vera hasarhetjur eða sérfræðingar í sjálfsvarnarlistum, það mætir bara á staðinn og lætur aðra eyða peningum og tíma í tæknibrellur,“ sagði hinn 62 ára Seagal við The Big Issue.
Seagal, sem lék í The Patriot og Under Siege, bætir við: „Sjáið Liam Neeson. Hann getur ekki slegist, hann er langt í frá einhver hasarmyndagaur en samt leikur hann í hasarmyndum, þannig að það segir sína sögu. Hann er frábær dramatískur leikari. En er hann hasarmyndagaur? Nei. Er hann góður slagsmálamaður eða stríðsmaður? Nei, alls ekki,“ sagði Seagal.